150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:48]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Margt ágætt kom fram í ræðu hv. þingmanns. Í sjálfu sér ætlaði ég ekki að koma í andsvar við hann en ég get ekki á mér setið þó að málið tengist samgönguáætlun ekki beint. Hv. þingmaður bauð upp í dans sjálfur í ræðu sinni með þeim furðulega málflutningi að tengja væntanlega — að hans ósk — sölu á lóðum Landsbankans og byggingum höfuðstöðva hans við vegaframkvæmdir.

Forseti. Hvaða rugl er þetta? Í hvaða sæluríki í ímyndun hv. þingmanns er það þannig að ráðherra fjármála hringi í fyrirtæki sem hann má ekki hafa bein afskipti af, samkvæmt armslengdarreglum sem við settum á í kjölfar eins stykkis bankahruns, og segir: Heyrðu, hættið við það sem þið ætlið að eða gera, seljið lóðina, félaga minn í ríkisstjórninni vantar peninga í veg? Hvaða rugl er þetta, forseti? Hv. þingmaður hefur trekk í trekk komið í þessa pontu og haldið þessu fram. Honum er ítrekað bent á ruglið í eigin málflutningi en heldur áfram að bera þennan ranga málflutning aftur og aftur vísvitandi fram. Þetta er popúlismi, forseti.