150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:51]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er morgunljóst að hv. þingmaður skilur ekki málflutning minn. Hann skilur heldur ekki hvernig fer með eigendastefnu eða mögulega sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins. (BirgÞ: Hver á bankann?) Hv. þingmaður — (Gripið fram í: Á Bankasýslan bankann?)

(Forseti (WÞÞ): Þögn í þingsalnum. Hv. þingmaður hefur orðið.)

Ég veit að hv. þingmaður kann vel að beita öllum brögðum popúlista, t.d. að sitja úti í sal og gala þannig að aðrir þingmenn komist ekki að. Ég bið hæstv. forseta að tryggja mér þögn hér.

Það er sjálfsagt að setja eigendastefnu og það er verið að gera það. Það er sjálfsagt að velta fyrir sér hvort umrædd framkvæmd Landsbankans sé rétt eða hvort það eigi að fara aðra leið. Sjálfur hef ég miklar efasemdir um hana en ég leyfi mér ekki að tala hér í umræðu um samgönguáætlun eins og það sé bara hægt að smella fingrum, hætta við ákvarðanir sem eru teknar á öðrum stöðum en hér eða í fjármálaráðuneytinu til að setja peninga í vegi. Þrátt fyrir að hv. þingmanni hugnist svona pólitík er þetta sem betur fer ekki svona.

Munum af hverju armslengdarreglurnar voru settar. Hefur hv. þingmaður gleymt því? Er minni hv. þingmanns ekki meira en þetta? Ræðum í rólegheitunum hvað á að gera við arð af bönkum eða sem kemur af mögulegri sölu einhvers. Ræðum þegar þar að kemur hvernig við getum nýtt hann í vegaframkvæmdir. Frábært, ég skal taka þátt í því samtali, en að blanda því inn í umræðu um fimm ára samgönguáætlun er popúlismi og ég skil vel að hv. þingmaður skilji það ekki því að sannleikanum verður hver sárreiðastur.