150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:55]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að reyna að róa þetta aðeins niður — nei, nei, það er gaman að þessu. En við ræðum þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024, aðgerðaáætlun eins og hæstv. samgönguráðherra sagði að þetta væri og sem þetta er. Ég hef setið hér og hlustað á ræður og menn hafa verið mjög málefnalegir og verið að velta þessum málum fyrir sér, hvernig þessi áætlun lítur út og líka fjármögnunarleiðum, hvernig hægt væri að gera enn betur. Ég hef oft komist svo að orði um samgöngukerfið okkar að við höfum, vegna ýmissa atriða, ekki enn náð í skottið á okkur. Þá er ég að tala um vegaframkvæmdir og vegasamgöngur. Gríðarleg breyting hefur orðið hvað varðar fólksfjölda og annað slíkt. Okkur Íslendingum hefur náttúrlega fjölgað og síðan hefur ferðamönnum fjölgað alveg gríðarlega. Það voru í kringum 2,3 milljónir sem fóru í gegnum Keflavíkurflugvöll 2018 en eitthvað hefur þeim fækkað á þessu ári. Margir þessara ferðamanna ferðast um vegi landsins. Fyrir nokkuð mörgum árum lögðust strandsiglingar ríkisins af þannig að stór hluti þungaflutninga færðist upp á þjóðvegina og þannig er það í stórum dráttum enn. Það er gríðarlegt álag á þjóðvegum landsins út af þungaflutningabílum, stórum „treilerum“ sem eru kannski 40–50 tonn. Ég man ekki hve marga fólksbíla þarf á móti einum slíkum bíl, það eru til tölur yfir það (Gripið fram í: 11.000) — 11.000 segir einhver í hliðarsal. Það er rosalega mikið álag á vegum út af þessu. Álag á vegum hefur aukist gríðarlega en vegaframkvæmdir ekki fylgt á þeim hraða sem þyrfti. Þess vegna þarf að leita allra leiða til að ná í skottið á þróuninni svo að við náum að vera með þokkalegar samgöngur.

Það hefur komið fram í ræðum í dag að samgöngur eru eitt af stóru innviðamálum landsbyggðarinnar eða landsins alls. Fólk sem býr úti á landi býr margt hvert ekki við góðar samgöngur og fólk sem vill flytja út á land hugar að samgöngum á svæðinu og annað slíkt. Það er því mjög stórt atriði að við náum að koma þessu í betra horf. Þingmenn hafa eðlilega talað um sín kjördæmi. Ég er þingmaður úr Norðvesturkjördæmi og þar er ástandið ekki gott. Ég veit ekki hvort það er verst í því kjördæmi af kjördæmum landsins en það er alla vega ekki gott. Hér hefur verið minnst á tengivegi og malarvegi. Ég held að 70% vega í Dalasýslu séu malarvegir og eitthvað meira í Húnavatnssýslum, yfir 70% þar. Við vitum hvernig ástandið hefur verið í vegamálum á Vestfjörðum en það horfir reyndar til betri vegar. En betur má ef duga skal og þörf er á enn betri árangri.

Mér kom í hug í dag umræða, sem var mikil á kjörtímabilinu 2013–2016, um hvernig hægt væri að ná tekjum af ferðamönnum — náttúrupassi, komugjöld og annað slíkt. Einhverra hluta vegna fór sú umræða út um víðan völl og lending náðist ekki. Er það mjög miður vegna þess að ferðamenn eru stór hluti þeirra sem nota vegi landsins og njóta náttúrunnar og brýn nauðsyn á að leggja á komugjöld eða hvað sem menn vilja kalla það. Einhverra hluta vegna fór sú umræða úr böndunum. Hún náði ekki, eins og þarf að vera þegar leita þarf lausna, neinu vitlegu plani Við þurfum að ná þeirri umræðu aftur af stað og ná lendingu eins fljótt og hægt er.

Miklar breytingar eru að verða í sambandi við orkugjafa. Hlutur bensín- og olíugjalds fer minnkandi vegna þess að bílar eru að breytast. Það eru orkuskipti í samgöngum, rafmagnsbíllinn er að taka við. Þetta eru, hvað á maður að segja, lúxusvandamál sem eru að birtast okkur hin síðustu ár og á því þarf að finna flöt. Mikið hefur verið talað um gjaldaleiðir. Ég hef áhyggjur af því að fyrir því gæti farið eins og umræðunni um komugjöldin eða náttúrupassann eða eitthvað slíkt, sem er mjög miður. Ég get séð fyrir mér að gatnagjöld, eins og í gegnum Hvalfjarðargöngin, gætu komið þessu til leiðar, gætu flýtt framkvæmdum annars staðar. Það var mikið rætt á sínum tíma en einhvern veginn hefur það ekki þróast nógu vel.

Í mínu kjördæmi, sem er landmesta kjördæmið en að öllum líkindum það fámennasta, eru menn mjög áhyggjufullir út af því hvernig þetta er að þróast, t.d. hvað varðar veg um Veiðileysuháls á Ströndum. Vatnsnesvegur var færður aftur í tímann núna. Áðan var rætt um öryggismál en hann er hættulegur hvað varðar skólaakstur fyrir börn, sem minnst var á, og fyrir alla sem um hann keyra, hann er bara skelfilegur. Umferð um Skógarstrandarveg á Snæfellsnesi hefur færst mjög í vöxt. Og þannig mætti áfram telja. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið á vegum landsins en þeir rata ekkert endilega á vegina sem eru með bundnu slitlagi. Þeir ýta bara á GPS og þá fer GPS með þá stystu leið og þá eru það oft malarvegir sem hafa orðið fyrir miklu álagi og er mjög erfitt að halda góðum eða sæmilegum.

Ég sé að tíminn er að verða búinn. Ég var rétt að byrja á því sem ég punktaði niður. Ég hef hlustað á margar ræður og margt hefur komið fram. Ég sé fram á að ég muni kveðja mér hljóðs í umræðu um næsta dagskrárlið sem er langtímaáætlun í samgöngumálum.