150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:17]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Herra forseti. Hér ræðum við um samgönguáætlun og mér er bæði ljúft og skylt að taka þátt í þeirri umræðu. Fyrir henni hefur verið mælt og það er rétt að lofa það sem vel er gert. Það er verið að reyna eftir efnum að laga það sem betur má fara og vissulega er það svo að innviðirnir okkar eru á þeim stað að þeir þurfa mikið viðhald vegna þess að það hafa liðið mörg ár þar sem við höfðum ekki fjármuni sökum efnahagshrunsins til að halda þeim við eins og best hefði verið á kosið. En það er mikið um fögur fyrirheit og m.a. er talað um að samgönguáætlunin sé fullfjármögnuð. Hún er það sjálfsagt miðað við það hvernig hún er lögð fram. En svo eru líka markmið sem eru sett fram í áætluninni. Þau lúta að öryggi. Ég stend ekki hér í dag eða í önnur skipti sem ég hef staðið hér til þess að vera að búa til einhvern pólitískan storm um þetta. Ég er með bakgrunn úr fluginu og þar höfum við vanið okkur á og lagt mikið upp úr að segja hlutina eins og þeir eru, ekki að vera fegra þá og ekki að sverta þá heldur tala um hlutina eins og þeir eru.

Ég hef tekið nokkrum sinnum áður sæti tímabundið á Alþingi í fjarveru kollega minna og á þeim tíma hafa ítrekað komið upp aðstæður þar sem hefur annaðhvort verið neyðarástand eða allt að því neyðarástand í flugi. Ber þar kannski fyrst að nefna í þessu kerfi okkar — og ég ætla að reyna að takmarka þessa ræðu svolítið við flugkaflann — að Keflavíkurflugvöllur er okkar alþjóðaflugvöllur, okkar aðalgátt inn í landið og þar er náttúrlega mestur þungi umferðar sem flytur farþega og farm til og frá vellinum. Okkur hættir til, og eðlilega kannski, að horfa mikið á Icelandair og þar til fyrir skömmu á WOW air sem var annar flugrekandi sem var orðinn ansi umsvifamikill á Íslandi. En það eru fjölmörg önnur félög sem nota þennan völl og hafa verið á bilinu 26–28 félög önnur sem hafa flogið hingað inn reglubundið. Það má ekki gleyma þeim flugfélögum sem eru að fljúga á milli Evrópu og Bandaríkjanna yfir Norður-Atlantshafið og nýta Keflavík sem varaflugvöll. Það að flugvél beini flugi sínu inn til Keflavíkur sökum neyðar, hvort sem það er tæknileg bilun eða eitthvað sem er vegna veikinda um borð eða eitthvað svoleiðis, er ekki óþekkt og gerist reglulega og hefur áhrif á nýtingu vallarins. Við erum með tvær brautir þar sem skarast en þegar flugmenn gera flugáætlanir og plana flug inn á þennan flugvöll er gert ráð fyrir tveimur opnum brautum. Til vara erum við með þrjá aðra flugvelli á Íslandi sem eru Reykjavík, Akureyri og Egilsstaðir. Staðan er sú, af þeim sökum sem ég nefndi í upphafi, að þessum völlum hefur verið illa við haldið og margt við þá sem hreinlega stenst ekki skoðun. Til að mynda er flugvöllurinn á Egilsstöðum í því ástandi að flugbrautin þar verður að öllum líkindum ónýt eftir sirka 18 mánuði. Það er mikil nauðsyn, bæði á Akureyri og Egilsstöðum, að byggja upp, sem er nú í áætlunum, flughlöð eða samliggjandi akbrautir til að það sé hægt að rýma brautirnar og kannski ekki síst á Egilsstöðum þarf að koma upp stjórnuðu loftrými. Það er algerlega nauðsynlegt. Það er til þess að stytta þann tíma sem það tekur að koma fleiri vélum inn á völlinn ef svo fer að það þurfi að beina flugi frá Keflavík inn til Egilsstaða. Egilsstaðir, Akureyri og Reykjavík eru ólíkir flugvellir að flugtæknilegum eiginleikum. Þeir eru á ólíkum veðursvæðum og hindranir og annað gerir þetta að verkum.

Það er stefnt að því í þessari samgönguáætlun að Isavia taki raunverulega yfir Egilsstaði. Ýjað er að því — ég hef ekki séð fyrir því fastan fót en það má vera að það sé rangt hjá mér — að Isavia komi raunverulega til með að sjá um endurnýjunina á Egilsstaðaflugvelli en það á væntanlega að fjármagna hana með hóflegu varaflugvallargjaldi, eins og sagt er í samgönguáætlun. Það varaflugvallargjald er ekkert annað en aukaskattur á þá flugrekendur sem koma til með að nota flugvöllinn. Tilfellið er nú einu sinni í fluginu að þar er staðan erfið, það eru lág verð sem flugfélögin eru að keppa við í Norður-Atlantshafinu og lítið svigrúm. Það má kannski benda á að ef það væri ekkert mál fyrir þessi flugfélög að hækka verðið um 200, 300 eða 400 kr. væru þau alveg klárlega búin að því og ekki kannski úr vegi að nefna í leiðinni að þessi flugfélög leggja sinn skerf til samfélagsins í formi skatta og gjalda og spurning hvort ætti ekki að líta til þess að þessar tekjur og útgjöld ríkisins yrðu í meira marki mörkuð og beint í þá hluti og á þá staði þar sem hver og einn er að leggja til í svona málum.

Ég veit ekki hvort það er fullkannað en mig langar til að spyrja að því hér hvort aðkoma NATO hafi verið könnuð varðandi uppbyggingu þar sem þeir eru nú að koma inn í meira mæli en þeir hafa gert um margra ára skeið; eða Evrópusambandið, vegna þess að við búum við svolítið aðrar aðstæður en Evrópuríkin, eyland í Norður-Atlantshafi. Í Evrópu eru gjarnan flugvellir í nærliggjandi löndum og vegalengdir í flugi minni þar sem það eru fleiri flugvellir sem geta þjónað varaflugvallarhlutverkinu eins og Keflavík gerir og eru fjármagnaðar á sama hátt.

En varðandi Reykjavíkurflugvöll þá hef ég áhyggjur af því að á bls. 3 í samgönguáætluninni, ef ég man rétt, er tafla þar sem er talað um stofnkostnað og sundurliðun um alþjóðaflugvelli. Þar eru áætlaðar 30 milljónir í Reykjavíkurflugvöll en 0 kr. í aðra flugvelli. Varðandi viðhald og reglubundna endurnýjun eru þetta í sundurliðunartöflu á bls. 4 200 milljónir á fyrsta ári og síðan 418, samtals fyrir Reykjavík, Akureyri og Egilsstaði o.s.frv., samtals 1.300 milljónir á þessu fimm ára tímabili. Ég held að við þurfum að finna leiðir til að gera betur ef það er einhver fræðilegur möguleiki á því og finna þessa fjármuni. Ástandið eins og það er í dag er því miður ekki í lagi. Það er ekki sagt hér til þess að vera með einhverja leikræna tilburði. Það er bara staðreynd og hefur sannast aftur og aftur á undanförnum 18–24 mánuðum. Þar hefur skollið hurð nærri hælum.

Þar sem ég er farinn að tala um Reykjavíkurflugvöll er kennslu-, æfinga- og einkaflug að stærstum hluta statt þar, sem og stærstur hluti innanlandsflugsins. Staðsetning vallarins hefur verið undirorpin stöðugri óvissu. Það er ávallt verið að takast á um það hvort völlurinn eigi að fara eða vera og ávallt verið að tala um hvort það eigi ekki að finna honum nýjan stað. Ég verð að segja það fyrir hönd flugmanna, held ég að ég geti fullyrt, að það er engin andstaða við það að finna nýjan völl eða finna honum nýjan stað ef það er hægt að ganga úr skugga um að sá flugvöllur verði opinn og tilbúinn til að taka við því hlutverki áður en Reykjavíkurflugvelli verði lokað. En forsendurnar verða að vera þær að sá flugvöllur sé að öllu leyti jafn góður eða betri kostur. En þá erum við farin að tala um upphæðir sem eru svo svimandi háar að ég sé bara ekki miðað við átökin hér á þingi um þær krónur sem verið er að togast á um að þeir fjármunir finnist. Ég veit ekki hvernig menn ætla að finna þá. Hvort sem verið er að tala um 8 milljarða, sem væri kannski lægsta talan fyrir lítinn kennslu- og einkaflugvöll, upp í 300–500 milljarða stærð, sem yrði þá nýr millilanda- og innanlandsflugvöllur, held ég að þetta séu stærðir sem eru mögulega óraunhæfar. En það má vera að einhver sé með (Forseti hringir.) einhverjar aðferðir til þess að finna þessa fjármuni sem ég hef ekki komið auga á enn þá. — Ég næ ekki að klára þetta.