150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlusta á þessa umræðu í kvöld. Umræðan er fjölbreytt, sumir fljúga hátt og fara með himinskautum á meðan aðrir eru jarðbundnari, bara eins og gengur. Það má segja að þetta endurspegli bæði áhugasvið manna og kannski ekki síður, sem eðlilegt er, kjördæmin sem þeir koma úr. En þegar allt er tekið saman blasir auðvitað við okkur sem niðurstaða allrar yfirferðarinnar hversu brýn málin eru, hversu stór og mikil málin eru þegar kemur að samgöngumálum og hvað við vildum geta gert miklu meira og á skemmri tíma. Sá áfangi sem mér finnst við hafa náð í þessari umræðu, þótt vissulega sé útfærslan eftir, er að menn hafa þvert á flokka sæst á að til að stíga stærri og meiri skref á skemmri tíma — og þá, ítreka ég, án þess að það verði of íþyngjandi fyrir íbúa landsins, með þátttöku erlendra ferðamanna — við ætlum að flýta framkvæmdum á grundvelli gjaldtöku. Um það hafa verið skiptar skoðanir. En það má segja að það sé komin lending. Það eru allir farnir að horfa í sömu átt. Það endurspeglast til að mynda í höfuðborgarpakkanum, sáttmálanum um uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu, metnaðarfullri áætlun, og síðan því sem kom fram í samgönguáætlun sem við afgreiddum í febrúar sl.

Menn fara svolítið í þessari umræðu eins og kettir í kringum heitan graut og eru jafnvel að tala um að það þurfi að breyta gjaldtöku á bíla vegna orkuskipta í samgöngumátum o.s.frv. Það verður bara að horfast í augu við að við erum að horfa á það að koma á viðbótargjaldtöku til að geta flýtt framkvæmdum. Ávinningurinn á að verða þeirra sem nýta þessar framkvæmdir, keyra í gegnum þessi gjaldhlið, þær eiga að nýtast mest þeim sem fara oftast um því að sparnaðurinn í tíma og eldsneytiseyðslu á að verða minni. Hann á að jafna það upp.

Ég hef áhyggjur af því að mér finnst þessi samgönguáætlun sem við erum að fjalla um ekki kallast nægilega á við þær hugmyndir og þá sátt sem við lentum í febrúar sl. Ég held að það sé ekki mikið mál að samræma þetta vegna þess að grundvöllurinn að því er sá, og það hef ég fundið á ferðum mínum um landið, að það ríkir víðtækari sátt ef þetta leggst sem víðast á. Við getum kallað þetta landsátak. Að við séum öll þátttakendur í því að hraða þessari uppbyggingu. Þannig hugsaði þingið það í febrúar, að taka höfuðleiðir inn og út af höfuðborgarsvæðinu og hefja gjaldtöku á þeim leiðum, taka þær út úr samgönguáætlun og dreifa fjármagninu, hefja síðan gjaldtökuverkefni úti um land og jafnvel að hefja þar gjaldtöku á ákveðnum mannvirkjum eins og jarðgöngum o.s.frv. þannig að við myndum dreifa þessum kostnaði jafnt.

Það var komið svolítið inn á þá stefnu sem þingið mótaði í samgönguáætlun með höfuðborgarpakkanum. Það voru tekin þar verkefni út sem voru inni í samgönguáætlun sem hafði auðvitað ákveðna breytu í för með sér. En eftir standa samt mjög mikilvæg verkefni sem þarf að hraða uppbyggingu á og einfaldari gjaldtaka sem snýr eiginlega fyrst og fremst að höfuðborgarsvæðinu. Um það getur aldrei orðið sátt. Þannig að ég held að með því að færa til að mynda þau verkefni sem standa út undan, þ.e. þessar höfuðleiðir, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg, Vesturlandsveg, inn í höfuðborgarpakkann eða inn í sama módel, færa gjaldhliðin utar, eins og lagt var upp með, að við getum nálgast þetta og síðan skipulagt þetta. Auðvitað fer eftir útfærslunni hvort við náum víðtækri sátt en þetta er það sem bíður hv. umhverfis- og samgöngunefndar þingsins að glíma við og ég ítreka (Forseti hringir.) að það mun örugglega taka nokkurn tíma að ná niðurstöðu í þessu mikilvæga máli.