150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[20:59]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurn um flug, hún kom mér á óvart. Varðandi þetta viðbótarfjármagn leitum við auðvitað til Isavia um hvernig þjónustusamningurinn lítur út og forgangsröðun verkefna þar. Þegar við sjáum fyrir okkur hvaða fjármuni við höfum til viðbótar við þjónustusamninginn þá munum við að sjálfsögðu leita til þeirra. En eins og hv. þingmaður veit og margir aðrir hérna í salnum þá vantar okkur verulega meira fé í innanlandsvellina og þeir eru margir hverjir alveg komnir á síðasta damp eins og hér hefur komið fram hjá einstaka þingmönnum. Það verður enginn vandi að koma þessum fjármunum út til þess sem nauðsynlega þarf. Ég held að það muni hjálpa okkur verulega að hafa úr nokkur hundruð milljónum meira úr að spila á næsta ári en ella.

Varðandi hina fyrirspurnina, um aðalskipulag Reykjavíkurborgar, þá segjum við einfaldlega í þessu samkomulagi að stefnt skuli að því flytja núverandi flugstarfsemi, reynist það vera vænlegur kostur og liggi fyrir niðurstaða um fjármögnun. Svo segir:

„Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar.

Reykjavíkurborg lýsir yfir vilja sínum til að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur í samræmi við 2. mgr. 5. gr. samkomulags þessa.“

Þetta liggur því í augum uppi. Sem ráðherra mun ég ekki segja Reykjavíkurborg fyrir um hvernig nákvæmlega þau breyta aðalskipulagi sínu en það er hluti af þessari undirritun að breyta aðalskipulagi, þó að það sé vissulega fyrirvari í núgildandi skipulagi. En ég held að það sé miklu skýrara og umræðan á Íslandi verður miklu gáfulegri þegar við tölum um hlutina eins og þeir eru.