150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:06]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo að ég svari aftur vil ég lesa upp úr samkomulaginu. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Reykjavíkurborg lýsir yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur í samræmi við 2. mgr. 5. gr. samkomulags þessa.“

Og hvað stendur í 2. mgr. 5. gr.?

„Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan á undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til að nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar.“

Það gildir auðvitað um sjúkraflugið. Við þekkjum samkomulagið um að kennslu- og einkafluginu verði fundinn nýr staður. Þegar við erum sammála um að skoða Hvassahraun og ef niðurstaðan verður jákvæð erum við komin með ákveðna uppbyggingarfasa sem við getum skalað upp — þetta er ekki góð íslenska, ég biðst forláts á því — og þá erum við með eitthvert plan. Ef þessi tveggja ára rannsókn leiðir það hins vegar í ljós að Hvassahraun gengur ekki erum við á svolítið verri stað og þurfum að setjast niður aftur.

Það er tryggt með þessu samkomulagi að við höldum áfram því sem við þekkjum í dag í tiltekinn tíma, förum og skoðum og svörum þeim ósvöruðu spurningum sem sumir hafa haldið fram að búið væri að svara í þessa átt eða hina. En það kom í ljós í könnuninni að þeim var ósvarað, spurningum um veðurfar, um flugprófanir, um umhverfismat, um fleiri þætti, um ferðatíma frá Hvassahrauni að Landspítala eða inn í miðborgina að stjórnsýslunni fyrir þá sem eru að koma með innanlandsflugi. Síðan eru hlutir er lúta að sjúkrafluginu til að tryggja að sá tími sé sem stystur. Ég vil fullyrða að þetta samkomulag taki á þeim þáttum og Reykjavíkurborg mun að sjálfsögðu gera sitt til þess að uppfylla það.