150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:16]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Með strandsiglingarnar vil ég bara segja að ég hef ekki skoðað sérstaklega að koma þeim á með sérstökum hætti en það hefur verið að gerast á síðastliðnum árum með vaxandi útflutningi frá fleiri höfnum að þær eru líka notaðar til að flytja vörur á milli hafna á Íslandi sem og í innflutningi. Þannig að það hefur í raun verið að gerast að einhverju leyti.

Varðandi skosku leiðina er það alveg rétt að hún var ekki hugsuð sem niðurgreiðsla til flugrekenda. Hún er til þess að jafna aðstöðumun fólks sem býr úti á landi, langt frá þeirri starfsemi sem við höfum ákveðið að byggja hér upp í Reykjavík, hvort sem er á sviði heilbrigðismála eða menningar og menntastofnana. Hún er til þess gerð. En það sem við höfum séð — og þess vegna var hún áhugaverð — er að hún býr til aukinn hvata fyrir að fólk nýti sér þennan ferðamáta, sem þýðir að flugið verður vinsælla, það verða fleiri sem nýta sér það. Þannig styrkir hún einnig rekstrargrundvöll flugrekenda.