150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og langar aðeins að fá að eiga orðastað við hann um nokkuð sem kom fram hjá honum, bæði nú og í fyrri ræðu, þegar hann ræddi fimm ára áætlunina og það er hár kostnaður sem oft virðist jafnvel koma á óvart í einfaldari og minni verkefnum, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Mig langaði eiginlega bara til þess að spyrja hvort hann hafi eitthvað skoðað það — af því að hv. þingmaður kom aðeins inn á að það gætu verið einhverjar ástæður eins og öryggiskröfur, eða hvað það væri, sem gerði að verkum í undirbúningi að slík verkefni yrðu kostnaðarsamari en stundum mætti ætla — eða gert samanburð við þau lönd sem við berum okkur helst saman við eða hvort hann hefði gefið sér tíma til að fara ofan í kjölinn á þessari tilteknu þróun.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það kemur gjarnan á óvart að þessar tilteknu framkvæmdir, hvort sem um er að ræða göngubrýr eða jafnvel brýr, göng undir tiltekna vegi, eitthvað slíkt, eru ansi fyrirferðarmiklar í fjármálaáætlunum þegar kemur að framkvæmdum. Mér þætti bara gaman að heyra, úr því að hv. þingmaður nefnir þetta tvívegis eða kemur inn á þennan hluta, hvort hann hafi gefið sér tíma til að kafa ofan í þetta og reynt að vega og meta hvort við séum að fylgja einhverri almennri þróun eða hvort eitthvað annað sé undirliggjandi sem vert sé að skoða í stóru myndinni.