150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:29]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu sem er afskaplega áhugaverð. Það vill svo til að ég hef hitt nokkra verktaka sem hafa nú kannski ekki verið að gera þessa hluti en mér skilst að í öðrum löndum sé þetta gert með miklu einfaldari hætti, það séu forsteyptar einingar sem eru gjarnan járnbundnar og uppfylla allar kröfur. Ég hef ekki skoðað þetta alveg ofan í kjölinn, ég verð að játa það. En af viðtali við verktaka virðist eins og við séum jafnvel ein meðal fárra þjóða sem framkvæmum þetta á þennan flókna hátt, þ.e. að það sé slegið upp, það sé fyrst hannað, það sé teiknað. Þetta eru nú samt alltaf eins undirgöng undir vegi, það er alltaf eins, það þarf bara að komast þarna undir, keyra undir eða ganga undir, og þetta er raunverulega mjög einfaldur kassi sem þarna er slegið upp, fyrst gólfi, síðan veggjum beggja vegna og síðan þaki. Í hvert sinn þarf að bíða eftir að steypan þorni og svo þarf að bíða lengi eftir að hleypa megi umferð á. Þeir sem ég hef talað við fullyrða að þetta sé ekki gert svona víðast hvar annars staðar heldur séu forsteyptar einingar fluttar á staðinn þegar búið er að grafa, þær settar niður og síðan fyllt að og þá er hægt að keyra yfir. Ég nefndi þetta nú bara vegna þess að ekki er langt síðan ég hitti einn mann sem nefndi þetta líka. Þetta er kannski ein leið til að spara. Mér hefur vaxið í augum kostnaðurinn við framkvæmdir, eins og að hringtorg kosti 300 milljónir. Mér finnst það ótrúlega mikið fjármagn. Og hvar erum við stödd? Hvert er vandamálið? Eru einhverjir menn einhvers staðar í kerfinu sem sitja að einhverjum kjötkötlum sem erfitt er að koma þeim frá? Mér dettur það helst í hug.