150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:35]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034. Eins og ég sagði í andsvörum við hæstv. ráðherra áðan virðist, alla vega við lestur fyrstu síðna ályktunarinnar sem ég er ekki kominn djúpt inn í, um frekar metnaðarfulla áætlun að ræða, þó að fram hafi komið í máli síðasta ræðumanns að það sé ýmislegt sem betur mætti fara. Nefndi sá sem hér stendur malarvegi og tengivegi og nokkrar leiðir sem eru aftarlega í þessari áætlun, svo sem Vatnsnesvegur og Veiðileysuháls og svo vantar t.d. Skógarstrandarveg þarna inn.

Ég ætlaði að vera á svipuðum nótum og ég var í ræðu minni áðan um hina þingsályktunina og fjalla um stóru myndina í samgöngumálum. Þau eru eitt stærsta innviðamál okkar Íslendinga. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa aðeins upp úr því sem kemur fram á fyrstu blaðsíðu í ályktuninni um framtíðarsýn og meginmarkmið:

„Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengi byggðir landsins og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.“

Um meginmarkmið áætlana í samgöngu- og sveitarstjórnarmálum segir:

Þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins.

Sjálfbærar byggðir og sveitarfélög verði um land allt.“

Þetta eru háleit markmið og ber að fagna því. En svo er spurning hverju fram vindur þegar fram líða stundir og þá þarf í fyrsta lagi að vera hægt að fjármagna svona háleit markmið. En það er góðra gjalda vert að vera með háleit markmið. Það kom líka fram í máli ráðherrans að þetta væri í fyrsta skipti sem jarðgangaáætlun væri á dagskrá og eins flugáætlun. Ég hef í mörg ár verið mjög áhugasamur um aukna jarðgangagerð. Mér hefur oft fundist, þegar verið er að gera plön um nýja vegi, að jarðgöngin verði ekki ofan á heldur undir í framkvæmdum og er það fyrst og fremst út af því að þau eru dýrari. En þau eru örugglega ekki dýrari þegar til lengri tíma er litið vegna þess að göng kalla á minna viðhald. Það snjóar ekki inn í göngin og þá sparar það snjómokstur og annað slíkt. Það má segja að Vegagerðin hafi verið ofan jarðar vegna þess að hún er ódýrari en til lengri tíma litið eru jarðgöngin örugglega mun hagkvæmari. Ég nefndi áðan að ég kem úr Norðvesturkjördæmi. Þar er mikið um fjallvegi og myndi leysa samgöngumál betur þar ef göng væru gerð á fleiri stöðum.

Það er líka annað sem mig langar að koma inn á og það er í sambandi við það að þegar verið er að gera áætlun, plön, og undirbúa framkvæmdir þá strandar oft á málum sem heita umhverfis- og náttúruverndarmál. Það var maður sem er eldri en ég og reyndari sem sagði — ég hef reyndar ekki leitað eftir því sjálfur — að umhverfisverndarmál í sambandi við samgöngumál hafi í upphafi verið allt öðruvísi hugsuð en þau eru framkvæmd í dag. Mér fannst gott að heyra þetta og fór hann svolítið vel ofan í þetta. Þetta var meira svona til að vernda umhverfið og náttúruna en líka, það sem vantar oft í umræðuna í dag, var talað um samfélagsvernd og öruggar samgöngur á milli byggðarlaga. Ég skora á alla sem vilja ræða samgöngumál og setja inn í þau umhverfis- og náttúruvernd að bæta þá samfélagsvernd við líka vegna þess að maðurinn er jú partur af náttúrunni og við þurfum að taka tillit til þess.

Við sjáum títtnefnda leið um Gufudalssveit, Teigsskógsleiðina, sem var á sínum tíma tilbúin til útboðs, að ég held í kringum 2004. Hún er búin að vera í endalausum kærumálum og vandræðagangi allar götur síðan og er loksins núna, vonandi, að komast til framkvæmda. En það er með það verkefni eins og önnur sem illa hefur gengið að koma á koppinn að ég ætla ekki að fagna því fyrr en ég sé það. Auðvitað er til leið sem stjórnmálamenn geta farið í svona málum og það er að setja lög ef allt um þrýtur. Það er kannski allt of lítið um það en það er líka kannski algjör nauðvörn. En mér finnst þetta dæmi um leið sem hefur lent í þeim kröggum að umræðan og allt í kringum hana hefur farið út í tóma vitleysu, leyfi ég mér að segja. Er það mjög miður. Þetta er eitthvað sem þarf að breytast í framtíðinni, að verkefni af þessu tagi gangi ekki svona rosalega illa. Það bara gengur ekki.

Ég spurði ráðherra í andsvari um framtíðina, hvað hann sæi fyrir sér í fjármögnunarleiðum. Hann svaraði því nokkuð vel, það væru mjög breyttir tímar. Þeir hafa breyst mjög hratt núna, bara hvað varðar t.d. orkugjafa, fjölgun fólks og farþega og annað, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, og örugglega koma þeir til með að breytast hratt í framtíðinni líka þannig að það þarf að bregðast við þeim staðreyndum. Talandi um langtímamarkmið held ég að það sé rétt hjá mér að Dýrafjarðargöng, sem nú eru að verða staðreynd, hafi verið á langtímaplani. Svo var komið að þeim og farið var af stað en það á eftir að ljúka — hönnun er reyndar í gangi yfir Dynjandisheiði en það á eftir að ljúka henni og það er ekki fyrr en 2024 sem sú framkvæmd gæti hafist. Samt sem áður ber að fagna því að þessi göng séu í framkvæmd og það var bara af því að komið var að þeim í áætlun og svo var byrjað að vinna að þeim. Þannig að öll svona framtíðarplön eru til góðs. En þau þurfa líka að standast og fjármögnun þarf að vera í lagi og annað slíkt.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra núna, enda er tíminn að renna frá mér. Ég á eftir að skoða þetta betur, enda er þetta bara fyrri umr. og málið á eftir að fara til umhverfis- og samgöngunefndar sem fer örugglega vel yfir það og verður gaman að vita hvað kemur út úr þeirri vinnu. Ég mun fylgjast vel með þegar þetta kemur aftur hingað inn í þingið.