150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

leigubifreiðaakstur.

421. mál
[21:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðaakstur. Frumvarpið hefur verið í vinnslu um nokkurn tíma en heildarendurskoðun laga um leigubifreiðar hófst með skipun starfshóps um endurskoðun á þeim reglum sem gilda um leigubifreiðaakstur á Íslandi í október 2017. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum í skýrslu til ráðuneytisins í mars 2018. Í skýrslunni kom fram það mat hópsins að breytingar á íslensku regluverki um leigubifreiðar væru óhjákvæmilegar.

Frumvarpið byggir að meginstefnu til á tillögum þeim sem starfshópurinn lagði til í skýrslu sinni. Þá hafa þær umsagnir sem bárust um efni skýrslunnar og frumvarpsdrögin á fyrri stigum verið hafðar til hliðsjónar, auk þess sem tekið hefur verið mið af þróun löggjafar í nágrannaríkjum okkar.

Í janúar 2017 hóf Eftirlitsstofnun EFTA frumkvæðisathugun á leigubifreiðamarkaðnum á Íslandi og mögulegum hindrunum að aðgengi að honum. Í kjölfarið átti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið í bréfaskriftum við stofnunina og mátti ráða af samskiptunum að eftirlitsstofnunin teldi líkur á að íslensk löggjöf um leigubifreiðar fæli í sér aðgangshindranir sem samræmdust ekki alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins. Eftirlitsstofnunin hafði þá þegar gefið út rökstutt álit um leigubifreiðalöggjöf í Noregi en þágildandi löggjöf þar í landi svipaði um margt til þeirrar íslensku. Í álitinu komst eftirlitsstofnunin að þeirri niðurstöðu að norska ríkið bryti gegn skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum að því er varðar stofnsetningarrétt ríkisborgara EES-ríkjanna.

Stofnsetningarréttur felur í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki með þeim skilyrðum sem gilda að landslögum um ríkisborgara þess ríkis þar sem stofnsetning fer fram.

Það frumvarp sem hér er lagt fram er afrakstur vinnu áðurnefnds starfshóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Samgöngustofu og samráðs við hagsmunaaðila og almenning. Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 19. júní 2018. Alls bárust sjö umsagnir í samráðsgáttina frá hagsmunaaðilum og stjórnvöldum, auk þess sem ein umsögn barst frá einstaklingi. Flestar umsagnirnar voru jákvæðar í garð breytinga sem myndu opna aðgengi að leigubifreiðamarkaðnum. Drög að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar voru svo birt í samráðsgáttinni 20. maí á þessu ári og bárust þá 12 umsagnir í gáttina frá 15 aðilum.

Í kjölfar samráðsins voru gerðar talsverðar breytingar á frumvarpinu í samræmi við ábendingar umsagnaraðila. Þannig voru m.a. gerðar breytingar á ákvæðum um mat á góðu orðspori og heimildir Samgöngustofu til slíks mats betur afmarkaðar, ákvæði um framsetningu verðskráa var einfaldað, reglugerðarheimildir ráðherra á ýmsum stöðum voru takmarkaðar eða felldar brott og sett var inn ákvæði sem skyldar rekstrarleyfishafa til að skrá upplýsingar samkvæmt gervihnetti um hverja ekna ferð. Að lokinni úrvinnslu umsagna og eftir að gerðar höfðu verið breytingar á frumvarpsdrögunum í kjölfar fyrra samráðsferlis voru ný drög að frumvarpi birt í samráðsgáttinni 29. júlí 2019. Þá bárust níu umsagnir í samráðsgáttina og voru í kjölfarið gerðar breytingar á m.a. ákvæðum frumvarpsins um skilyrði fyrir leyfisveitingum og reglugerðarheimildir ákvæðanna þrengdar enn frekar.

Með frumvarpi þessu er lagt til að til verði tvenns konar leyfi til að stunda leigubifreiðaakstur. Lagt er til að fjöldatakmarkanir atvinnuleyfa verði afnumdar og að skylda til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð verði sömuleiðis afnumin. Þá eru gerðar breytingar á skilyrðum til þess að mega starfa sem leigubifreiðastjóri og reglur um lágmarksnýtingu leyfa eru felldar brott.

Markmiðið með frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir er fyrst og fremst að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu fyrir almenning á Íslandi. Þá er frumvarpinu ætlað að færa lög og reglur um leigubifreiðar til nútímalegra horfs þar sem öruggar og tryggar samgöngur eru hafðar að leiðarljósi, auk þess að tryggja að íslenska ríkið uppfylli þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar.

Verði frumvarpið að lögum munu þau auka atvinnutækifæri fjölbreyttra hópa. Þannig eru karlar mun fjölmennari en konur í stéttinni í dag en almennt eru konur taldar líklegri til að starfa í hlutastörfum en karlar. Afnám reglna um lágmarksnýtingu leyfis er þannig til þess fallið að veita kynjunum jafnara aðgengi í stéttina. Þá er afnám reglna sem kveða á um að umsækjandi um leyfi hafi starfað fyrir leyfishafa í ákveðinn dagafjölda til að eiga möguleika á að fá útgefið leyfi til þess fallið að veita þeim sem hafa engin persónuleg tengsl við stéttina jafnari möguleika á við aðra til að fá útgefið starfsleyfi. Neytendur hafa kallað eftir því að opnað verði á þjónustu farveitna hér á landi til viðbótar við þjónustu hefðbundinna leigubifreiða. Hvergi er í frumvarpinu minnst berum orðum á farveitur en með frumvarpi þessu eru stigin ákveðin skref sem gera farveitum sem nýta nútímatækni til viðskipta kleift að hefja starfsemi hér á landi uppfylli þau skilyrði laganna að öðru leyti. Þannig er gætt að sjónarmiðum um jöfn samkeppnisskilyrði og þannig er gert ráð fyrir því að kjósi bílstjórar að starfa fyrir farveitur sem nýta snjalltækni við milligöngu um þjónustuna þurfi þeir að uppfylla öll sömu skilyrði og þeir sem hyggjast starfa sem leigubifreiðastjórar í hefðbundnari skilningi. Þá verður farveitum gert að lúta sömu skilyrðum og leigubifreiðastöðvar og í raun lítur frumvarpið á farveitur sem leigubifreiðastöðvar. Hvergi er þannig slakað á kröfum um öryggi og gæði þjónustu að því er varðar farveitur.

Nú mun ég gera nánari grein fyrir helstu nýmælum og breytingum sem felast í frumvarpi þessu.

Í fyrsta lagi ber að nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þrjár tegundir leyfa verði í umferð. Fyrst ber að nefna atvinnuleyfi sem veitir mönnum rétt til að starfa sem leigubifreiðastjóri. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að til verði rekstrarleyfi sem veiti mönnum rétt til að reka eina leigubifreið auk þess að starfa sem leigubifreiðastjóri. Loks ber að nefna starfsleyfi fyrir leigubifreiðastöðvar. Atvinnuleyfi samkvæmt frumvarpinu svipar til leyfis forfallabílstjóra samkvæmt gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að leyfið veiti mönnum rétt til að starfa við leigubifreiðaakstur án þess að reka eigin leigubifreið. Leyfið er ekki háð skilyrðum um lágmarksnýtingu og veitir því rétt til að starfa við leigubifreiðaakstur hvort heldur sem er að aðalstarfi, hlutastarfi eða í afleysingum.

Rekstrarleyfi samkvæmt frumvarpinu svipar til atvinnuleyfis samkvæmt gildandi lögum um leigubifreiðar. Gert er ráð fyrir að leyfið veiti mönnum rétt til að starfa sem leigubifreiðastjóri og til að reka eigin leigubifreið. Þannig þurfi rekstrarleyfishafar ekki að hafa atvinnuleyfi að auki. Rekstrarleyfi er ekki, frekar en atvinnuleyfi, háð skilyrðum um lágmarksnýtingu. Gerðar eru talsverðar breytingar á ákvæðum um leigubifreiðastöðvar og starfsleyfi þeirra. Þannig er gert ráð fyrir því að skylda leigubifreiðastjóra til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð verði afnumin en engu að síður eru settar í lög reglur um starfsleyfi stöðva. Gert er ráð fyrir því að fjöldatakmarkanir á útgefnum leyfum til að stunda leigubifreiðaakstur verði afnumdar og munu takmörkunarsvæði því heyra sögunni til.

Heimildir Samgöngustofu til eftirlits með starfseminni eru skýrðar og auknar frá því sem verið hefur samkvæmt gildandi lögum. Þannig er gert ráð fyrir því að Samgöngustofu verði heimilt að krefjast þeirra upplýsinga úr hendi leyfishafa sem nauðsynlegar eru til eftirlits. Heimildir stofnunarinnar til að svipta leyfishafa leyfi eru einnig gerðar skýrari og áhrifaríkari en verið hefur.

Gerðar eru breytingar á þeim skilyrðum sem umsækjendur þurfa að uppfylla til að geta fengið útgefið leyfi til að stunda leigubifreiðaakstur, m.a. eru ákvæði um brotaferil umsækjanda gerð skýrari.

Herra forseti. Nú hef ég farið yfir helstu nýmæli frumvarpsins. Í þessari ræðu gefst ekki tími til að greina nákvæmlega frá öllum þeim breytingum sem felast í frumvarpinu en ítarlega er gerð grein fyrir þeim í almennri greinargerð sem fylgir því. Það er mikilvægt að vel takist til við endurskoðun laga og regluverks um leigubifreiðar. Um er að ræða lagabálk sem snertir stóran hluta þjóðarinnar að einhverju leyti, jafnt neytendur sem veitendur þeirrar þjónustu. Þá snertir regluverkið marga þá sem dvelja hér til skamms eða lengri tíma.

Það er ljóst að skoðanir eru skiptar um einstök útfærsluatriði í frumvarpinu en með samþykkt þess mun íslensk löggjöf um leigubifreiðar að mínu mati uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins ásamt því að tryggja betur en nú er öryggi jafnt farþega sem leigubifreiðastjóra. Þá er samþykkt frumvarpsins til þess fallin að auka heilbrigða samkeppni og nýsköpun í greininni og gera skilyrði betri til að framboð svari eftirspurn.

Að lokum legg ég til, herra forseti, að eftir 1. umr. verði málinu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.