150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

leigubifreiðaakstur.

421. mál
[22:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einfaldlega mjög áhugaverð umræða og maður hefur svo sem lítið að gera annað en að spá í hlutina. En það er hægt að koma með vangaveltur. Segjum að fyrirtæki sem byði upp á þessa þjónustu væri starfandi Reykjavík með þær almenningssamgöngur sem hér eru í boði núna, ég hugsa að því myndi ganga ansi vel að ná fótfestu. Ef hugmyndir samgönguyfirvalda og yfirvalda í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum og bæjum um almenningssamgöngur hefðu náð fram að ganga held ég að staðan væri allt öðruvísi. Ég er sannfærð um að þetta hangir verulega mikið saman. Sjálf hef ég búið í Bandaríkjunum, á stað þar sem ég átti enga leið aðra en að nýta einkabíl, nema hreinlega þegar ég var að ferðast verulega langar vegalengdir á milli bæja. Þar hefði Uber komið sér mjög vel. Ég hefði frekar viljað nýta einfaldari leiðir en ég held að þetta snúist alltaf um sambland og að því leyti til held ég að við séum að gera þetta í ágætissinki.

Svo má líka alveg velta fyrir sér hvernig upphafsstaðan sé. Við búum á Íslandi við þær aðstæður að fólk á — hvað vorum við farin að tala um sem fjölda bíla á heimili? Þetta eru gígantískar tölur. Hér er fólk að keyra mikið eitt þannig að það að Uber kæmi hingað inn núna og fólk notaði það mikið væri töluvert annað en á svæðum þar sem bílaeign er einfaldlega ekki mikil, þó að hún aukist að einhverju leyti þar. Það þarf að vega þetta og meta og reyna einhvern veginn að hafa samanburðinn eins réttan og hægt er. Ég er sannfærð um að þetta er skref í rétta átt og þetta fyrirkomulag, til hliðar við góðar almenningssamgöngur, er okkar sterkasta leið til þess að draga úr einstaklingsbílaumferð.