150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

leigubifreiðaakstur.

421. mál
[22:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það er ekki allt gott sem kemur frá ESA. Það er ekki allt nauðsynlegt heldur. Hér erum við að tala um að herða ólarnar um eina starfsstétt á Íslandi og við ætlum að opna gáttir á að nánast hver sem er geti farið að keyra leigubíl. Við þurfum ekki fleiri leigubíla í sjálfu sér, herra forseti. Það eru 671 leyfi í gildi og nokkuð á annað þúsund afleysingabílstjórar að störfum og auk þess eru væntanlega í kringum 4.000 bifreiðar skráðar til fólksflutninga sem ekki eru skráðar sem leigubílar en lúta að mörgu leyti lögmálum leigubíla og eru tilgreindar sem eðalvagnar og ýmislegt slíkt, þannig að það er enginn skortur á akstri með leigubílum.

Ég er búinn að lýsa því yfir áður á öðrum vettvangi og ég get bara endurtekið það hér að svokallað deilihagkerfi er fínt orð yfir skattsvik og við höfum nóg af skattsvikum á Íslandi. Sá angi deilihagkerfisins sem hefur kannski helst rutt sér til rúms á Íslandi til þessa er gisting sem er kennd við Airbnb. Í sex ár var ekkert gert til að skrá þessar eignir og koma þeim t.d. undir skattalög, þangað til einn ágætur ráðherra tók á sig rögg — og hafi hún þökk fyrir — og setti á stofn nokkurs konar aðgerðahóp sem varð til þess að þriðjungur þessara eigna er nú skráður. Fyrir fjórum árum var innan við 10% þeirra skráður. Og ekki nóg með að þessi starfsemi sé í svona 60–70% tilfella óskráð og greiði þar með ekki skatta og skyldur, hún er samt í samkeppni við aðra sem greiða skatta og skyldur. Ég hélt alltaf að Sjálfstæðisflokkurinn sem er merkisberi frjálsrar samkeppni vildi að samkeppnin væri á jafnréttisgrundvelli, að þeir sem væru að störfum á ákveðnu svæði eða í ákveðnu kerfi stæðu svona nokkurn veginn jafnfætis. Það hefur ekki verið með þann anga af deilihagkerfinu svokallaða sem hingað hefur komið til Íslands. Við erum hér með hótelrekstur sem í velflestum tilfellum skilar öllum sínum sköttum og skyldum og síðan erum við með þá sem eru undir radarnum og borga ekki neitt. Þessa sér líka dæmi í veitingarekstri í dálitum mæli þar sem menn sem jafnvel eru með erlent vinnuafl á kjörum sem jaðra við mansal eru að keppa við aðra sem eru með allt sitt á hreinu.

Og nú eftir þessa reynslu ætlum við að opna glugga á að það sama gerist í leigubílaakstri. Hér var í síðustu ræðu vitnað í slagorðið „Báknið burt“. En til að hafa eftirlit, ef það á að hafa eftirlit með afleiðingum af þessu frumvarpi, er ég hræddur um að þurfi að bæta í báknið. Þá þarf að bæta í eftirlitið til að ganga úr skugga um að þeir sem komast að starfi eins og lög gera ráð fyrir.

Ég sé hvergi í greinargerðinni getið þess að það er til nýleg sænsk skýrsla um reynslu Svía af því að færa leigubílaakstur í Svíþjóð í „frjálsræðisátt“ og sú skýrsla er mjög svört. Svíar eru í standandi vandræðum og ætla sér reyndar að reyna að snúa til baka, sem er alltaf erfitt, og reyna að koma taumhaldi á þennan rekstur aftur. Ég sé ekki, eftir að hafa gluggað í þetta frumvarp, ég hef ekki lúslesið það, neitt sem sannfærir mig um að eftirlit með þeim sem verður hleypt að þessum rekstri verði fullnægjandi. Það er nú einu sinni þannig að þegar við erum að fjalla um viðskipti — og þetta hélt ég að Sjálfstæðismenn vissu líka — snúast viðskipti ekki einvörðungu um að gera öllum sem vilja stunda viðskipti endilega miklu léttara að stofna fyrirtæki og hefja starfsemi vegna þess að það er annar hópur sem kemur að þessu máli. Hann heitir viðskiptavinir. Það þarf líka að tryggja bæði öryggi og rétt þess hóps. Það er ekki nóg að slaka svo á kröfum og reglum til þeirra sem stofna til viðskipta, þ.e. fyrirtækja eða reksturs, að það komi niður á neytendum eða notendum þjónustunnar. Og það er akkúrat það sem ég óttast að muni geta gerst ef þetta frumvarp fer hratt í gegnum þingið.

Það er að vísu, eins og ég sagði áðan, ekkert sem hastar á að afgreiða þetta frumvarp og það er alveg sjálfsagt fyrir þá ágætu nefnd sem þetta fær, ætli það verði ekki hv. umhverfis- og samgöngunefnd eða hv. efnahags og viðskiptanefnd, að fara mjög gaumgæfilega yfir frumvarpið og kanna til hins ýtrasta hvort það sem hér er sett fram um eftirlit o.s.frv. muni halda og duga. Það er mjög athyglisvert, verð ég að segja, að núna á þeim dögum sem við erum að opna glugga í átt að Uber er stórborgin London að banna Uber vegna þess að reynslan af því er hvergi góð í London. Það er mjög eftirtektarvert en það væri svo sem ekki í fyrsta skipti sem við Íslendingar tökum eitthvað upp sem reynst hefur illa annars staðar, bara svona af því bara. Þetta virðist vera plagsiður og hefur verið gert oft, því miður.

Það segir hér, með leyfi forseta, í greinargerð með frumvarpinu:

„Í Danmörku skulu leigubifreiðar hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð en ekki er gerð krafa um að fleiri en ein leigubifreið hafi afgreiðslu á hverri stöð.“

Hver sá sem fær rekstrarleyfi þarf að hafa einhverja aðstöðu sem má kalla leigubifreiðastöð. Þetta er nú eitt af því sem skapar öryggi fyrir þá sem neyta, þ.e. neytendur, farþega.

Það segir hérna líka, með leyfi forseta:

„Í Finnlandi hefur verðlagning leigubifreiðaþjónustu verið gefin frjáls, atvinnuleyfi eru ekki lengur bundin við ákveðin landfræðileg mörk önnur en landamæri ríkisins og ekki er skylt að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð.“

Samkvæmt þeim fregnum sem manni hafa borist frá Finnlandi er þar líka gríðarlega erfitt ástand sem bitnar að lokum á farþegum, á notendum, á neytendum. Þannig að ég hefði í sjálfu sér ráðlagt hvorri nefndinni sem þetta mál fær til meðferðar að kanna mjög ítarlega þær afleiðingar sem þetta aukna „frjálsræði“ hefur haft á hinum Norðurlöndunum. Ég hefði líka ráðlagt að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar fari mjög vel yfir það að hvort nefndin telji að eftirlit samkvæmt frumvarpinu sé með þeim hætti að fullnægjandi megi teljast, auk þess að kanna hvað það eftirlit muni geta kostað, vegna þess að allur sá kostnaður sem fellur til hjá ríkinu vegna þess arna mun um síðir ratað út í verðlagið. Þegar við erum að kaupa þjónustu yfirleitt er það þannig að ef vara eða þjónusta er miklu ódýrari en einhver annar hefur að bjóða er það venjulega vegna þess að minni kröfur eru gerðar. Við þekkjum þetta ágætlega t.d. úr farþegaflugi þar sem svokölluð lággjaldaflugfélög bjóða náttúrlega ekki upp á sömu þjónustu og önnur félög sem bjóða upp á meiri þjónustu. Ef menn ætla að lækka verð á einhverri ákveðinni þjónustu minnka gæði þjónustunnar. Það mun líka verða í þessu dæmi. Það er ekki til nein töfralausn til að reka bifreiðarþjónustu með einhverjum ódýrari hætti en gert er í dag og ef það er svo að skilyrði eða kröfur samkvæmt þessu frumvarpi hér, t.d. um tryggingar, eigi að teljast sambærilegar við þær tryggingar sem t.d. leigubílar hafa í dag þá erum við að tala um mjög verulegan kostnað. Tryggingagjöld fyrir leigubílaakstur eru mjög há þannig að hvar ætla menn að spara sem setja upp leigubílaþjónustu? Ætla þeir að kaupa sér ódýrara eldsneyti? Þeir fá væntanlega ekki ódýrari tryggingar nema tryggingarnar séu ekki af þeim standard sem aðrir nota. Þeir geta hugsanlega sparað með því að þurfa ekki að hafa stöðina eins og aðrir en eins og ég og segi: Hvar ætla menn að spara? Hvar verður sparnaðurinn? Hvar eru tækifæri til stórkostlegra verðlækkunar á akkúrat þessum markaði, sem er vissulega nokkuð erfiður?

Og þá kemur spurningin líka um að bæta við þessi tæplega 700 leyfi og þessar 4.000 bifreiðar sem eru skráðar til fólksflutninga á Íslandi. Hvað þurfum við margar í viðbót? Ég sé ekki í dag að það sé nokkur skortur á þessari þjónustu. Sá skortur er ekki til staðar þannig að ég vara við því að menn flýti sér um of að opna allar gáttir og afnema takmarkanir á leyfisfjölda. Ég sá heldur ekki við fyrsta yfirlestur að hér væri gert ráð fyrir svipuðum takmörkunum og í Noregi, þ.e. í dreifbýli. Ef það er hér hefur það farið fram hjá mér.

Ég segi aftur: Við skulum nýta reynslu þeirra sem hafa þegar stigið þessi skref vegna þess að sumir þeirra sjá eftir því í dag og við skulum bara fara þannig að þessu máli að við hröpum ekki að því að hnika til kerfi sem virkar ef við þurfum það ekki. Við skulum fara okkur hægt í þessu máli og við skulum hafa samráð við þá sem eru nú þegar starfandi á markaðnum. Ég held að það væri líka affarasælt. Ég vona að þegar málið gengur til nefndar fái það mjög gaumgæfilega yfirferð í þeirri nefnd sem tekur það að sér þannig að við getum verið þess fullviss að við séum ekki með samþykkt þessa frumvarps, þegar þar að kemur, að stíga skref sem við kynnum að sjá verulega eftir síðar.