150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

fordæmisgildi Landsréttarmálsins.

[15:11]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Þegar kemur að því að segja ekki neitt með rosalega mörgum orðum held ég að hæstv. sjávarútvegsráðherra vinni verðlaunin í þeim leik í dag. (Sjútvrh.: Ertu með fyrirspurn til mín?) Nei.

Í fréttum RÚV í gær sagði hæstv. dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, að hún teldi dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu ekki hafa mikið fordæmisgildi í Evrópu. Þessi nýjustu ummæli ráðherrans eru í engu samræmi við málflutning ráðherrans sjálfs um málið hingað til. Reyndar eru þau í algjörri mótsögn við allan málflutning ríkisstjórnarinnar og íslenskra stjórnvalda í þessu máli hingað til. Hæstv. ráðherra hlýtur að muna þegar hún sagði þann 9. september sl., með leyfi forseta:

„Við vildum láta endurskoða málið af því að við töldum niðurstöðuna ganga of langt. Hún getur einnig haft fordæmisgildi.“

Þetta sjónarmið hefur einnig komið skýrt fram í tilkynningum dómsmálaráðuneytisins. Greinargerð ríkislögmanns tilgreinir fordæmisgildi dómsins í rökstuðningi sínum til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu. Meiri hluta fjárlaganefndar nefnir fordæmisgildið til að auka fjárveitingar til sama ríkislögmanns um 8 milljónir til að snúa dómi Mannréttindadómstólsins. Svo hefur hæstv. forsætisráðherra auðvitað marglýst því yfir að fordæmisgildi dómsins fyrir aðrar þjóðir Evrópu sé ein af helstu ástæðum þess að ákveðið var að áfrýja málinu. Ríkisstjórnin þurfti einhvern veginn að réttlæta áfrýjunina sem og áframhaldandi óvissu um réttarkerfið á Íslandi, réttlæta það að eyða miklum tíma og peningum í að snúa þeirri niðurstöðu að dómarar á Íslandi hafi verið skipaðir að geðþótta ráðherra. Réttlætingin var einna helst sú að niðurstaðan hefði fordæmisgildi um alla Evrópu og því rétt að fá álit yfirdeildarinnar á Landsréttarmálinu.

Forseti. Það blasir við að hæstv. ráðherra er í hróplegri mótsögn við sjálfa sig og reyndar félaga sína í ríkisstjórn. Ég hlýt því að spyrja: Hvers vegna heldur ráðherra því fram núna að þetta mál hafi ekki fordæmisgildi? Þetta er bara ein spurning: Hvers vegna hefur málið allt í einu núna ekki fordæmisgildi? Og hvað segir það um alla þá vegferð sem við höfum ákveðið að fara í?