150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

fordæmisgildi Landsréttarmálsins.

[15:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Mér er ljúft og skylt að leiðrétta þetta af því að það hefur valdið einhverjum misskilningi eða ég var óskýr. Við höfum talið að niðurstaða Mannréttindadómstólsins geti haft miklar afleiðingar fyrir Ísland sem og önnur ríki Evrópu þar sem hvers konar annmarki á málsmeðferð, m.a. við skipun dómara á einhverju stigi, geti leitt til þess að dómsniðurstaða teljist með öllu ólögmæt, óháð því hversu tæknilegur annmarkinn er. Það er þetta sem er m.a. vísað til í greinargerð okkar að geti haft fordæmisgildi víðar.

Í fréttum RÚV í gær var ég aftur á móti að vísa til Póllands og málsatvika þar, enda var viðtalið um þau mál sérstaklega og aðkomu Póllands að þessu máli. Ég get ekki séð að málið sem við erum með fyrir yfirdeildinni geti verið fordæmisgefandi fyrir stöðuna í Póllandi að neinu leyti. Um er að ræða gjörólík mál og í það var ég að vísa í svörum mínum í fréttunum í gær. Ef ég var eitthvað óskýr og það gætir einhvers misskilnings leiðréttist það hér með. Mér finnst leiðinlegt ef það er en til þess að taka af öll tvímæli er ég eindregið þeirrar skoðunar að tryggja beri sjálfstæði dómstóla í hvívetna og það eru einfaldlega engin tengsl milli Íslands og deilunnar um sjálfstæði dómstóla í Póllandi.