150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

fordæmisgildi Landsréttarmálsins.

[15:15]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það er gott að heyra að ráðherra telji dóm Mannréttindadómstóls Evrópu hafa fordæmisgildi og að þetta mál hafi fordæmisgildi í Evrópu. En það sem ég væri til í að biðja hæstv. dómsmálaráðherra að útskýra betur er hvers vegna hún telur að þetta sé svona algjörlega ólíkt því sem er að gerast í Póllandi. Nú styðja pólsk stjórnvöld málstað íslenska ríkisins í Landsréttarmálinu einmitt vegna þess að þau telja málið vera fordæmisgefandi. Pólsk stjórnvöld eru raunar skýr með það að fái Landsréttardómurinn að standa skipti það gríðarlega miklu máli vegna breytinga sem pólsk stjórnvöld hafa gert og vilja gera á dómskerfinu. Þessar umræddu breytingar pólskra stjórnvalda hafa raunar víða verið gagnrýndar sem aðför og jafnvel ofsóknir gagnvart dómurum og dómstólum landsins.

Ég spyr því hæstv. ráðherra á hverju hún byggi það þegar hún segir að þetta sé ekki fordæmisgefandi fyrir (Forseti hringir.) Pólverja eða pólsku ríkisstjórnina í þeirri vegferð sem hún er að fara og hvort hún velti fyrir sér hvaða vegferð íslenska ríkið er á (Forseti hringir.) þegar málflutningur íslenska ríkisins hagnast þeim (Forseti hringir.) sem helst vilja tortíma sjálfstæði dómstóla í Póllandi. (Forseti hringir.) Sér hún engan samanburð, (Forseti hringir.) sér hún engin líkindi milli þessara tveggja mála?