150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

fordæmisgildi Landsréttarmálsins.

[15:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Samkvæmt 36. gr. mannréttindasáttmálans getur hvaða ríki sem er borið annaðhvort fram skriflegar athugasemdir eða tekið þátt í málflutningi hvers máls sem er fyrir neðri eða efri deild dómstólsins og Pólland nýtir sér þann rétt í þetta skipti. Önnur ríki hafa gert það og gera það ítrekað varðandi hin ýmsu mál þannig að það er ekkert athugavert við það og ekki mitt að hafa einhverja skoðun á því hvað það gerir fyrir málið.

Við höldum áfram að bera fram málið á okkar grundvallaratriðum og breytir í engu stöðu okkar þó að Pólland hyggist koma með sinn málflutning að málinu. Það sem er verið að ræða í Póllandi er að þar er verið að skipta út dómurum af pólitískum ástæðum, það hefur verið umræðan um málefnið þar, og það er auðvitað alls óskylt því sem Landsréttarmálið snýst um. (Gripið fram í.) Nei, það var ekki verið að skipta út neinum dómurum. (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmann að hafa það á hreinu um hvað það mál snerist þar sem hæfir dómarar voru skipaðir af ýmsum ástæðum, m.a. kynjasjónarmiðum og dómarareynslu.