150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

desemberuppbót.

[15:20]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þingmaðurinn spyr að því hvort nóg sé að gert gagnvart þeim sem hafa lægstar tekjur í þessu samfélagi. Ég vil nú meina að það séu ekki einungis öryrkjar vegna þess að það eru fleiri sem búa við bágust kjörin en örorkulífeyrisþegar. Þá vil ég segja: Nei, við erum aldrei búin að gera nóg hvað það snertir. Það er þyngra en tárum taki að á hverju ári skulum við horfa upp á það í okkar ríka samfélagi að fólk þurfi að standa í röðum fyrir jólin til að þiggja mat. En við erum að vinna að margvíslegum aðgerðum til að draga úr slíku.

Þingmaðurinn nefndi sérstaklega 10.000 kr. desemberuppbót sem eigi að vera skattfrjáls og eigi ekki að skerða. Hún er til komin m.a. vegna aðgerða þessarar ríkisstjórnar í gegnum fjárlaganefnd og meiri hluta hennar sem vinnur að slíkri tillögu. Þegar búið er að samþykkja hana getum við sett það í farveg að undirbúa að greiða hana út. Það mun auðvitað taka einhvern tíma en vonandi ekki of langan. Við getum ekki gert það fyrr en búið er að samþykkja málið svo það geti farið í farveg og Tryggingastofnun síðan greitt þetta út. Þar er hugsunin sú að aukauppbótin sem þar komi inn verði bæði skattfrjáls og valdi ekki skerðingum annars staðar í kerfinu.

Ég tek undir með hv. þingmanni, við erum aldrei búin að gera nóg í þessum málum. Hv. þingmaður vitnar til barna og meðan það er eitt barn sem býr við fátækt, er það einu barni of mikið. Í alþjóðlegum samanburði stöndum við okkur sem betur fer vel en betur má ef duga skal. Ég get tekið undir með hv. þingmanni hvað það snertir.