150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árunum 2019 og 2020.

438. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit um hinn æsispennandi samning milli Íslands og Færeyja um veiðar í lögsögu landanna. Það er orðinn árviss viðburður að við séum með hann til umfjöllunar í kringum jólin, en í þetta sinn erum við reyndar með samning til tveggja ára, fyrir árið sem er senn að líða og svo árið 2020.

Virðulegur forseti. Ég ætla bara að leyfa mér að lesa nefndarálitið. Það er ansi stutt og hljóðar svo:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þóri Ibsen frá utanríkisráðuneyti og Jóhann Guðmundsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árunum 2019 og 2020 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 17. maí og 3. júní 2019.

Samningurinn kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á árunum 2019 og 2020. Hann gerir ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árunum 2019 og 2020. Samkvæmt samningnum eru íslenskum skipum heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl innan færeyskrar lögsögu á árunum 2019 og 2020.

Samningurinn tók gildi til bráðabirgða 3. júní 2019 og mun öðlast endanlegt gildi þegar tilkynnt hefur verið um að stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hafi verið fullnægt.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Ari Trausti Guðmundsson og Gunnar Bragi Sveinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Sigríður Á. Andersen, Bryndís Haraldsdóttir, Logi Einarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Silja Dögg Gunnarsson, Smári McCarthy og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.