150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

afsökunarbeiðni þingmanns.

[14:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ef forseti telur tilefni til býð ég mig fram í samtal um samskipti okkar áðan en ég tel ágætt að við ræðum það bara utan þingsalarins, enda ekki ástæða til að ræða það hér fyrir framan alla aðra. Aftur á móti notaði ég orð hér áðan í svokölluðum hita leiksins, orð sem fyrst var notað af þáverandi hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur um málflutning þáverandi hæstv. utanríkisráðherra sem í dag er hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson þegar hann fjallaði um Evrópusambandið en hún notaði orðið „hroðbjóður“ um það mál. Við uppflettingu mína á netinu sést að ég var sem sé ekki fyrstur þingmanna til að nota þetta orð. Ég sé ekki í gögnum þingsins að gerð hafi verið athugasemd við notkun orðsins í þá daga og ég varð ekki var við athugasemd við notkun orðsins áðan. Mér líður samt sjálfum illa með að hafa notað það, vil því biðjast velvirðingar á því og mun forðast að gera það í framtíðinni.