150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ljómandi góða ræðu sem hún fylgdi þessu máli úr hlaði með. Hæstv. ráðherra talar um aðskilnað ríkis og kirkju, talar um sjálfstæði kirkjunnar, að verið sé að breyta því að kirkjan verði framvegis ekki einhvers konar ríkisstofnun. Ég hef nú aldrei litið á kirkjuna sem ríkisstofnun. Hún er hins vegar ákveðinn hluti af okkar samfélagi og samkvæmt stjórnarskrá er hún hluti af þeirri samfélagsgerð sem við höfum byggt upp. Ráðherra talar töluvert um aukinn aðskilnað, ef ég hef tekið rétt eftir, eða frekari aðskilnað. Hún talaði um að auka sjálfstæði kirkjunnar. Er það skoðun ráðherra að við eigum að fara alla leið og aðskilja að fullu kirkjuna frá ríkinu og breyta þá um leið stjórnarskránni, þ.e. 62. gr. hennar, hvað það varðar?