150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna. Mér finnst eitt standa upp úr í málflutningi þeirra sem ég hef heyrt tjá sig fyrir hönd Pírata, en nú vísa ég auðvitað sérstaklega í ræðu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar, það er svolítið eins og Píratar hafi ekki mikinn áhuga á vöxtum og vaxtaumræðu. Þegar 26–27% lands á Íslandi eru afhent ríkinu til eignar er hægt að nálgast málin annaðhvort út frá því að greiddur verði höfuðstóll þeirrar skuldar eða vextir af metinni upphæð. Það er þekkt hugtak, með leyfi forseta, „perpetual bond“ sem er vaxtagreiðslubréf, skuldabréf án eindaga höfuðstóls. Það er það sem er í gangi í þessu samkomulagi, við erum ekkert að finna þetta hugtak upp hér. Ef við tökum 3,7 milljarða greiðslu til þjóðkirkjunnar á næsta ári samkvæmt fjárlögum og afvöxtum hana miðað við 7% vexti er höfuðstólsverðmæti þess bréfs, lægi það fyrir, 53 milljarðar. Ef 53 milljarðar eru afgjaldið fyrir 26% lands á Íslandi eru það rétt um 2 milljarðar á hvert prósent og ég gæti talið upp nokkra sem væru til í að eignast sitt prósent af Íslandi fyrir 2 milljarða. Í því samhengi er algjörlega fjarstæðukennt að halda því fram að ríkið hafi samið af sér í þessu samhengi. Það verður að líta á þetta þannig að það er verið að borga vexti af þeirri greiðslu, því andlagi, sem ríkissjóður fékk sem eru ríkisjarðir þess tíma. Vaxtagreiðslan er þessi og ég verð að segja fyrir mig að 53 milljarða höfuðstólsskuldbinding — vill (Forseti hringir.) vill hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson þá leggja til að ríkissjóður borgi sem nemur höfuðstólnum ef við afvöxtum þær vaxtagreiðslur sem ég kýs að kalla?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir enn á að þingmálið er íslenska.)