150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það síðastnefnda var sagt í kaldhæðni í samhengi við þær breytingar sem eru lagðar til í viðbótarsamningnum um að ekki skuli lengur taka mið af fjölda skráðra í þjóðkirkjunni. Persónulega er mér alveg sama hversu margir eru skráðir í þjóðkirkjuna, ég lít svo á að það kom mér ekkert við. Það eina sem kemur mér við sem borgara og þingmanni er að tryggja að borgarar landsins njóti jafnréttis á öllum sviðum samfélagsins, þar á meðal hinu trúarlega. Gagnrýni mín á þessa stofnun snýr ekki að neinu öðru en því. Ég hef hvorki athugasemdir við það að fólk aðhyllist trúarkenningar þessarar stofnunar né að það sé hluti af henni eða að stofnunin sé til og ég geri ekki einu sinni athugasemdir við að sú þjónusta sé fjármögnuð af ríkinu. Ég vil bara að það sé á jafnræðisgrundvelli við aðrar trúarstofnanir ef það á að vera stuðningur yfir höfuð. Vonandi leiðréttir þetta það.

Ég tel ekki ómálefnalegt að standa við samninga en tel hins vegar samninga geta verið ómálefnalega. Dæmi gæti verið ef það væru 300% vextir af verðtryggðu láni. Mér þætti það ómálefnalegur samningur.

Skemmtilegast þykir mér samt að hv. þingmaður nefni þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012. Ég er nefnilega sammála hv. þingmanni um að við eigum að virða þá þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er af þeim ástæðum sem ég hef ekki lagt fram breytingartillögu við þjóðkirkjuákvæðið í frumvarpi Pírata og seinna meir Samfylkingarinnar um nýja stjórnarskrá. Ástæðan er sú að ég vil fyrst lögfesta þá stjórnarskrá og síðan vil ég halda áfram þessum eilífðarslag sem virðist vera við að koma á raunverulegu jafnræði í trúmálum á Íslandi. Það er aðskilinn slagur að mínu mati. Ég er líka bara til í að hlýða kalli þjóðarinnar þegar kemur að þessu, þegar kemur að setningu nýrrar stjórnarskrár og því að fylgja niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012. En ég verð að spyrja á móti: Er þá ekki hv. þingmaður sömuleiðis sjálfur skuldbundinn til að hlusta á rödd þjóðarinnar í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu um setningu nýrrar stjórnarskrár á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs? Ég hef ekki orðið var við mikinn stuðning við það úr röðum Miðflokksmanna.