150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:44]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég velti fyrir mér hvaða málflutningur það er sem við Píratar stöndum fyrir sem styggir hv. þingmann svona mikið. Ég reyndi að vera eins málefnalegur og ég gat í þessari umræðu og þætti gaman ef hv. þingmaður myndi gera það líka. Hvað varðar spurninguna um hvað 1% landsins ætti að kosta vitum við báðir, og að ég held við öll, að land er mjög misverðmætt eftir því hvað er á landinu og hvar það er, t.d. er malarfermetri uppi á miðhálendinu kannski ekki jafn verðmætur eins og fermetri í Kvosinni sem er búið að byggja háhýsi á. Þetta þýðir að ég get ekki lagt mat á þetta 1%. Hins vegar hefur það verið gert. Það var gert árið 1992 af kirkjujarðanefnd sem mat allar eignirnar sem þjóðkirkjan hafði á þeim tíma upp á rétt rúmlega 1 milljarð kr. Kannski væri það (Forseti hringir.) útgangspunktur til að reyna að meta þetta verð.