150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[18:07]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er ekki alveg viss um nákvæmlega hvað hv. þingmaður á við þegar hann talar um eignarhaldsdeilur. Eru einhverjar deilur uppi? Ég heyri að hér eru mjög miklir áhugamenn — og sumir þeirra viðstaddir umræðuna — um bókhaldsleg atriði, reikningshald, samhengi við lög um opinber fjármál, fínni blæbrigði í endurskoðun og reikningshaldi og öðru slíku. Það er ekkert nema gott um það að segja. Samningurinn frá 1997 stendur óhaggaður og það er mjög skýrt í þessu frumvarpi. Það er út af fyrir sig áhugavert að velta fyrir sér verðmætum en þá er líka alveg nauðsynlegt að menn hafi skýra sýn á söguna. Sagan byrjaði ekki 1997 og hún byrjaði heldur ekki 1907 þegar hin mikla afhending á kirkjujörðum fór fram. (Gripið fram í: Gæti verið 1874.) Ég fæ ágætt frammíkall og það er gaman að því en ég vil líka nefna að þegar ég var að fjalla um stjórnarskrárákvæðið, svo ég svari því, var ég með það í huga sem hv. þingmaður nefndi, að þar segir að þessu megi breyta með lögum, þ.e. kirkjuskipuninni, en þá hefur það þær afleiðingar að það skal efna til leynilegrar atkvæðagreiðslu og það er það sem skiptir máli. Þessari kirkjuskipun, stuðningi ríkisvaldsins við þjóðkirkjuna og þeirri vernd sem er áskilin þjóðkirkjunni verður ekki breytt nema þjóðin samþykki það í leynilegri atkvæðagreiðslu.