150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[18:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bendi hv. þingmanni á frumvarp sem í þetta sinn var lagt fram af Samfylkingunni en á seinasta þingi af Pírötum, þ.e. sem 1. flutningsmaður, þar sem mjög vel er farið yfir það hvað það þýðir nákvæmlega að setja nýja stjórnarskrá grundvallaða á frumvarpi stjórnlagaráðs. Það er til mjög mikið efni um þetta og ég skal glaður leiðbeina hv. þingmanni í þeim efnum ef hann svo kýs. Ég skil ekki alveg hvort hv. þingmaður beitir þessari þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir sig eða ekki. Í upphafi svars fannst mér hann ekki gera það en þegar ræðan hélt áfram fannst mér hann gera það.

Hann nefndi réttilega að þetta er mikil þátttaka en það vekur líka athygli að það er minnstur stuðningur í þjóðaratkvæðagreiðslunni við þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskránni.

Sleppum bara karpinu um orðalagið sem við getum alveg tekið fyrir síðar, en t.d. vilja 73% að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. 66,49% vilja að atkvæði séu jöfn. 78,36% vilja (Forseti hringir.) að persónukjör í kosningum verði heimilað í meiri mæli og 83% vilja að auðlindir sem ekki eru í einkaeigu séu lýstar þjóðareign. Er hv. þingmaður sammála því að þá eigum við að gera þessa hluti líka?