150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[19:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni svarið. Það er annað sem mig langaði til að bregðast við sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Hann talaði um hlutverk trúfrelsis í tengslum við það að ríkið skapaði þjóðkirkjunni í þessu tilviki yfirburðastöðu á markaði, ég ætla að leyfa mér að orða það þannig, í samkeppni við önnur trúfélög og lífsskoðunarfélög eftir atvikum. Mér sýnist vera sambærileg staða á öðrum markaði þar sem sá ríkisstyrkti fær á endanum eitthvað meira til ráðstöfunar en kirkjan í heild sinni. Það er ástandið sem er á fjölmiðlamarkaði þar sem Ríkisútvarpið hefur úr rétt um 6 milljörðum á ári að spila með sértekjum samanborið við mjög bága stöðu einkarekinna, minni fjölmiðla. (Forseti hringir.) Það væri forvitnilegt að heyra hvort hv. þingmaður sjái einhverja samsvörun þarna á milli og hvort hann hefði jafnvel áhuga á því að yfirburðastaða RÚV yrði að einhverju marki hægt og rólega tröppuð niður.