150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:29]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi fækkunina sem slíka á ég auðvitað eins og hv. þingmaður erfitt með að spá um framtíðina þannig að ég get ekki fullyrt að fækka muni með sama hraða og verið hefur. En það er ekkert sem bendir til annars. Þetta hefur verið mjög stöðugt. Þá stöndum við einmitt frammi fyrir því, eins og hv. þingmaður benti á, að við verðum kannski farin að nálgast 50% og þá gætum við farið að spyrja okkur: Er þá félag af þessu tagi, þjóðkirkjan, raunveruleg þjóðkirkja? Maður getur reyndar spurt sig að því líka þegar hún er með 63% landsmanna sem félagsmenn. Er eitthvert dæmi um sambærilega hluti? Nei, ég er alveg jafn blankur í þessum efnum og hv. þingmaður, ég veit bara ekki um það. En það væri auðvitað gaman ef einhver gæti bent okkur á það að menn hefðu farið þessa leið.

Síðan spyr hv. þingmaður mjög stórrar spurningar um réttlætið. Réttlætið er alltaf örlítið erfitt viðfangs því að það sem einum þykir réttlæti þykir öðrum argasta óréttlæti. Mér finnst það nú engu að síður blasa við að hér sé gengið býsna langt í því að tiltekinn félagsskapur sé styrktur, í þessu tilviki þjóðkirkjan sem vissulega á sér djúpar rætur og sinnir og hefur sinnt miklu hlutverki. Ég vil ekki gera lítið úr því. Málið snýst alls ekki um það. En það má líka benda á að þegar þetta samband ríkis og kirkju, sem er mjög langt, komst á og menn voru að gera samkomulag um fjárhag kirkjunnar, bæði þegar þetta kirkjujarðasamkomulag var gert og fyrr, þá gerðu menn bara ekki greinarmun á ríki og kirkju.