150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:31]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski akkúrat heila málið. Þegar við erum að tala um væntanlegan aðskilnað ríkis og kirkju þurfum við að gera upp alla lausu endana. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það í ræðu sinni að það er alla vega verið að kortleggja 15 ára tímabil þar sem endanleg niðurstaða á að fást. En maður veltir fyrir sér hvort þetta þurfi raunverulega að taka svona langan tíma í ljósi þess að það hefur verið óljóst í 22 ár um hvaða eignir sé að ræða, hvert sé raunverulegt virði þeirra eigna sem færðust á milli o.s.frv. Þá spyr maður sig: Þurfum við virkilega 15 ár í viðbót til að komast að því hver endanlegi eignalistinn sé þannig að hægt sé að gera hann upp? Og er það ekki bara áframhald á ákveðnu kerfisbundnu ójafnrétti byggðu á þeirri gömlu hugsun að ríkið og kirkja séu eitt og hið sama sem veldur þessari tregðu? Er það í rauninni fyrirsláttur sem veldur því að við getum ekki fengið heiðarleg svör um hvers eðlis þetta sé?