150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er búið að vera erfitt að komast að því hvaðan þessi upphæð kemur þegar allt kemur til alls. Svo virðist sem þetta sé einfaldlega upphæðin sem þurfti til. Það voru svo og svo margir prestar og það þurfti að borga laun þeirra. Gjörið svo vel, hérna er fullt af eignum.

Í svari við fyrirspurn þáverandi þingkonu Birgittu Jónsdóttur á 141. þingi var vísað í skýrslu kirkjueignanefndar um þær jarðir sem voru undir í því samkomulagi sem var gert 1997 og 1998 en einhverra hluta vegna hættu svörin í kjölfarið að vera nákvæm. Þau voru nákvæm þarna, það væru þessar eignir, en í kjölfarið á því urðu svörin: Við höfum ekki hugmynd um hvað þetta er.

Þetta veldur mér smááhyggjum um ákveðin heilindi í þessu samkomulagi gagnvart Alþingi og svo náttúrlega gagnvart þjóðinni í annan stað. Hvernig stendur á því að annars vegar er svona erfitt að draga upp þá þjónustu og skuldbindingu sem höfum gagnvart stjórnarskránni og svo hins vegar uppgjör gagnvart þessum eignum? Það gerðist eitthvað tiltölulega nýlega varðandi þetta og svarið varð: Nei, það er best að gera ekki neitt í þessu.

Ljósi punkturinn er að lög um opinber fjármál voru sett og það á að skrá allar þessar eignir og tengdar skuldbindingar þannig að á árinu 2019 á að klára að vísa í tilteknar eignir sem komu til einhverra hluta vegna með þeim skuldbindingum sem þeim fylgja. Þá veltir maður fyrir sér tímasetningunni á þessu viðbótarsamkomulagi, það er gert rétt áður (Forseti hringir.) en við fáum í að vita (Forseti hringir.) um þessa tengingu. Ég sé ekkert annað en samsæriskenningar þar á bak við. (Forseti hringir.) Getur hv. þingmaður gert smáathugasemd varðandi það?

(Forseti (HHG): Forseti biður hv. þingmenn að virða ræðutímann.) (Gripið fram í.)