150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að Þorgeir Ljósvetningagoði hefði verið ósammála hv. þingmanni um að hér hafi ekki verið þjóðkirkja árið 1000 en það er aukaatriði í málinu. Það hefur sem sagt komið í ljós að spá þingmannsins um fækkun er gott gisk, eins og maður segir. Í sjálfu sér langar mig til að fá útskýringu á hvað sé ósamrýmanlegt við nútímaþjóðfélag í því að hér sé þjóðkirkja. Mig langar líka til að ítreka þetta með að kirkjan hafi átt jarðir „að nafninu til“, hvort hv. þingmaður hafi gaumgæft veðmálabækur og þá væntanlega aftur til hins fyrra kirkjujarðasamkomulags eða hvort hann telji, fyrst hann taldi að ríkið væri að semja við sjálft sig þegar upphaflegi samningurinn var gerður, að einhvern tíma í aldanna rás hafi ríkið gert eignir kirkjunnar upptækar bara hægt og hljótt.