150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:47]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Ég á reyndar giska erfitt með það, þótt ég sé góður giskari eins og þingmaðurinn benti á, að giska á hvað Þorgeir Ljósvetningagoði hefði sagt um þessa fullyrðingu mína. (ÞorS: Hann sagði að hér ætti að vera einn siður.) Já, já, hann sagði það en það var þannig á þeim tíma, eins og hv. þingmaður hefur sjálfsagt líka lesið í fornum ritum, að það var ekki meira einn siður en svo að menn máttu blóta á laun ef þeir bara gættu þess að segja ekki nokkrum lifandi manni frá því. (ÞorS: Það hefur breyst.) Þá held ég að það sé a.m.k. ekki sambærilegur einn siður við þann (Gripið fram í.) sem var á dögum Þorgeirs Ljósvetningagoða. Ég held að það sé erfitt fyrir okkur að ræða þetta á grundvelli þess hvað Þorgeir Ljósvetningagoði sagði eða yfirleitt þær hetjur sem riðu um héruð á sögulegum tíma í fortíðinni.