150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég fagna því eins og aðrir að von sé á ráðherra í húsið. Ég verð þó að viðurkenna að það voru mér ákveðin vonbrigði að heyra frá hv. þm. Birgi Ármannssyni að ráðherra hefði fylgst með umræðunni af áhuga í sjónvarpi í þingflokksherbergi Sjálfstæðismanna. Það hefði verið gaman að fá ráðherra til þátttöku í umræðunni í stað þess að hún sæti á neðri hæðinni og fylgdist með henni, enda tek ég undir með öðrum þingmönnum sem segja að þetta sé búin að vera að mörgu leyti mjög áhugaverð umræða, m.a. um stöðu þjóðkirkjunnar og mögulegar leiðir í aðskilnaði hennar og ríkisins sem ég veit að hæstv. ráðherra er hugleikinn og hún hefur sterkar skoðanir á. Hún hefur m.a. boðað að fram undan sé vinna og frumvarp í þá veru.

Ég held að það hefði verið öllum til gagns ef ráðherra hefði tekið þátt í umræðunni í þingsal í stað þess að fylgjast með henni úr þingflokksherbergi Sjálfstæðismanna.