150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, og raunar held ég að nafni hans Víglundsson hafi komið inn á það líka, hafi sagt að umræðan hafi vissulega verið nokkuð víðfeðm. Sumir myndu segja að umræðan hefði farið út og suður, bæði í gær og í dag, um þetta mál. Ég ætla ekki að segja við menn hvað þeir mega og hvað þeir mega ekki gera í þessu sambandi en það vekur athygli hversu margir úr hverjum stjórnarandstöðuflokki telja sig þurfa að taka þátt í umræðum um þetta mál þessa dagana, sérstaklega í ljósi þess að hér er um 1. umr. að ræða. Málið á eftir að ganga til nefndar og fá þar umfjöllun og tækifæri gefast síðar til að tala um það, hugsanlega á grundvelli málsins sjálfs en ekki hins stóra samhengis sem við getum auðvitað rætt út og suður og vítt og breitt eins og við viljum við önnur tækifæri.

Það er hins vegar áhugavert að fylgjast með því hversu margir hafa talið ástæðu til að taka til máls núna í gær og í dag um þetta og (Forseti hringir.) það kann að vera tilviljun en það kann að vera aðventuandinn sem hefur þessi áhrif. Það verður gaman að sjá hvort umræðan verður (Forseti hringir.) aðeins markvissari í framhaldinu en hún hefur verið hingað til.