150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:07]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég fagna því í aðdraganda jólanna að við séum að ræða málefni þjóðkirkjunnar, þeirrar góðu stofnunar. Ég held að það sé hið besta mál. Vegna orða hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar vil ég segja að ég hef haft á því skoðun hvernig við stýrum þinginu. Hv. þingmanni á að vera það vel kunnugt þar sem við sitjum saman í forsætisnefnd og ég hef margoft rætt það að mér finnst þingsköpin sem við vinnum með — og það er helst ræðutíminn — algjörlega út úr kortinu, í engu samræmi við önnur þjóðþing í kringum okkur. Mér finnst langar ræður leiðinlegar, ég skal bara viðurkenna það, það er bara mín persónulega skoðun. [Hlátur í þingsal.] Ég held að það væri miklu skemmtilegra ef við gætum haft styttri ræður og átt meira samtal og þess vegna mælist ég til þess, fyrst við erum að ræða málefni þjóðkirkjunnar, að við eigum sérstaka umræðu um stöðu og framtíð þjóðkirkjunnar í samfélagi. Ég held að það færi betur á því en að taka umræðna vítt og breitt nákvæmlega um það frumvarp sem hér er undir á þessum tímapunkti.