150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:09]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Eins og flestir sem þekkja til sögu Íslands vitum við að saga íslensku þjóðkirkjunnar er henni nátengd og hefur verið samofin henni allt frá því að Íslendingar ákváðu að taka upp kristna trú. Íslenskt samfélag hefur þróast hratt síðustu áratugi og líkt og annars staðar í heiminum höfum við færst sífellt fjær trúarbrögðum. Hvort sú þróun er góð eða slæm ætla ég ekki að leggja dóm á hér en ég tel hins vegar að í takt við þá þróun og breytingar á íslensku samfélagi sé eðlilegt að í því samhengi séu skoðaðar breytingar á stöðu kirkjunnar. Eðli málsins samkvæmt, þar sem um er að ræða þjóðkirkju, hefur fjárhagur kirkjunnar og ríkisins verið samofinn frá því að þjóðkirkjan var sett á fót. Við aðskilnað þarf eðlilega og raunverulega að velta því upp hvernig aðskilinni kirkju yrði tryggður einhver viðunandi tekjustofn eftir að ríkið hefur með þessum hætti blandað sér inn í fjármál hennar. Aðskilnaður ríkis og kirkju hlýtur að þýða að engin tengsl séu og að trúfélög séu öll sjálfstæð eða a.m.k. þannig að engin tengsl séu á milli ríkisins og einhvers eins trúfélags.

Málið sem við ræðum hér og kynnt er til breytingar er kynnt sem skref í átt að aðskilnaði ríkis og kirkju, en er eðlilegt að viðbótarsamningurinn muni auka tekjur þrátt fyrir umtalsverða fækkun í þjóðkirkjunni? Er eðlilegt að þessi aðskilnaður muni taka 15 ár? Það er rætt um að hér ríki trúfrelsi en meðan eitt trúfélag nýtur verndar í stjórnarskrá og umtalsvert betri kjara en önnur sambærileg félög er kannski ekki alveg hægt að ræða um trúfrelsi að fullu. Þó má ekki gera lítið úr því að kirkjan sé mikilvægur þátttakandi í menningar- og félagslífi flestra bæjarfélaga, sérstaklega á landsbyggðinni. Þá er sáluhjálp einnig veitt af prestum og þjóna prestar íslensku þjóðkirkjunnar fjölda fólks sem á um sárt að binda. Ekki skal ég segja að það sé vegna þess að skortur sé á sálfræðingum, já, eða að þeir séu ekki partur af sjúkratryggingum og því rándýr þjónusta. Þar mætti sannarlega gera betur, herra forseti, við að tryggja þeim sem á þurfa að halda aðgengi að sálfræðiþjónustu. Það verður þó ekki tekið af íslensku þjóðkirkjunni að hún vinnur á margan hátt gott og mikilvægt starf fyrir fjöldann allan af fólki. Ekki má gera lítið úr því, en erum við kannski að gera kirkjunni erfiðara uppdráttar með því að styrkja hana sérstaklega? Því miður virðist sem þessi umræða skaði einmitt oft ímynd þjóðkirkjunnar. Myndi íslenska þjóðkirkjan e.t.v. blómstra mun betur án þessarar fléttu við ríkið? Væri best ef kirkjan léti verkin tala og gegndi því hlutverki sem óskað er eftir af þeim sem sækja í sóknirnar?

Ég ítreka þó þá skoðun mína að ég tel kirkjuna vinna mikilvægt starf fyrir marga. Þegar talað er um að láta verkin tala er gott dæmi um starfsemi kirkjunnar Hjálparstarf kirkjunnar. Ég kemst ekki hjá því að velta fyrir mér hvort það góða starf sem þar er unnið gæti haldið áfram ef þjóðkirkjan væri ekki bundin stjórnarskrá og þar af leiðandi með meiri stuðning en önnur trúfélög. Hjá Hjálparstarfi kirkjunnar er unnið ákaflega mikilvægt mannúðarstarf. Því miður er staðan þannig í íslensku samfélagi í dag að útlit er fyrir að fleiri nýti sér aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir jólin í ár en síðustu ár en þess má geta að í fyrra nutu alls 1.274 fjölskyldur, um 3.400 einstaklingar, um land allt aðstoðar. Er þetta ásættanlegt? Er þetta samfélagið sem við viljum búa í, samfélag þar sem vel ríflega þúsund fjölskyldur þurfa að leita aðstoðar kirkjunnar eða annarra hjálparsamtaka og sveitarfélaga til að geta haldið jól? Ég segi: Nei, þetta er ekki ásættanlegt.