150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði með athygli á framsöguræðu hæstv. ráðherra en það getur vel verið að ég hafi misst af einu eða tveimur atriðum því hún var yfirgripsmikil. En auðvitað fagna ég því að hér sé verið að reyna að tryggja réttindi starfsmanna þeirra sem eiga í hlut. Ég fer hins vegar ekki ofan af því að þetta frumvarp er tilraun til að gefa okkur í smáskömmtum fullan aðskilnað ríkis og kirkju. Það hefur kannski ekki komið fram hjá hæstv. ráðherra hvað hún ætlar sér með það. Ætlar hún að vinna að fullum aðskilnaði ríkis og kirkju og þá hvernig og hvenær? Það væru náttúrlega upplýsingar sem nauðsynlegt væri að fá vegna þess að það er miklu stærra mál en svo að við gætum afgreitt það korteri fyrir jól á einu þingi. Þegar sá tími kemur vona ég og vænti þess að það mál og þau mál sem á eftir koma verði betur undirbúin og komi fram á betri tíma en þetta mál.