150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er það að mörgu leyti. Ég hef reyndar bent á það áður í bæði í andsvörum og ræðu að þessi upphæð sem ekki dugði, sem hv. þingmaður vitnaði til, er einmitt dæmi um yfirburðarstöðu ríkisins gagnvart kirkjunni á sínum tíma þegar samkomulagið var gert. Það er alveg klárt mál og ég reiddi fram eitt dæmi hér, líklega í andsvari í dag, við hv. þm. Smára McCarthy, ef ég man rétt, að ein jörð í Fljótsdal átti og á vatnsréttindi sem nýttust Kárahnjúkavirkjun og um afgjaldið fyrir þau vatnsréttindi hefði aldrei verið samið á því verði sem er í samningnum ef þar hefðu verið samningur milli tveggja óskyldra aðila. Þannig að ég held, og ekki bara held, ég veit, að kirkjan hefur í fáu — ég ætla ekki að segja í engu — notið þeirra hlunninda og búhnykkja (Forseti hringir.) sem fylgja mörgum þeim jörðum sem kirkjan á og átti árið 1907 og fyrr. (Forseti hringir.) Þannig að já, ég tel að kirkjan hafi verið hlunnfarin.