150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér endist ekki kvöldið og sennilega ekki 1. umr. eða 2. umr. til að fara yfir allt sem ég vildi gera athugasemdir við í máli hv. þingmanns. Það verður að hafa það. Ég ætla að taka fyrir eitt og það er hvernig hv. þingmaður lætur eins og þjóðkirkjan sé ægilega kúguð fyrir að jafnræðis sé gætt þegar kemur að dreifingu helgirita til barna eða ferða barna í kirkju eða þess háttar. Krafan er ekki sú að eitthvað sé bannað. Krafan er jafnræði. Hún er sjálfsögð og hún er augljós og einföld krafa. Þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef við höfum Nýja testamentið eða Biblíuna í ókeypis dreifingu til skólabarna, eigum við þá ekki líka hafa Bhagavad Gita, helgirit hindúa, eða Kóraninn, helgirit múslima, Mormónsbók, helgirit mormóna, Guðsfirruna eftir Richard Dawkins, Satanísku biblíuna eftir Anton LaVey, Dianetics eftir L. Ron Hubbard eða Guð er ekki mikill: Hvernig trúarbrögð eitra allt eftir Christopher Hitchens? Sjálfur myndi ég segja nei. Mér finnst ekki við hæfi að vera að dreifa svona ritum í grunnskólum sem eru fyrir okkur öll. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður ekki sammála því?