150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður sagði sjálfur fjallaði hann mest lítið um frumvarpið sjálft. Hann tilkynnti það í byrjun ræðu sinnar. Auðvitað snýst sú umræða sem fer hér fram í dag að mjög litlu leyti um það frumvarp sem er til umfjöllunar um að starfsmenn þjóðkirkjunnar verði starfsmenn þjóðkirkjunnar en ekki ríkisins frá og með áramótum. Það er sjálfsagt, eins og ég hef sagt áður, að ræða síðar fleiri mál þjóðkirkjunnar og í stærra samhengi. Af því að hv. þingmaður vitnaði í ræðu mína sérstaklega hef ég sagt það — ég sagði það á kirkjuþingi og hef rætt það opinberlega — að krafan um jafnræði milli ólíkra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga verður sífellt meira áberandi, ekki síst á meðal ungu kynslóðarinnar. En þetta frumvarp snýst að afar litlu leyti um það. Það snýst aðeins um aukið sjálfstæði kirkjunnar. Aukið sjálfstæði kirkjunnar til að ráða sínum málum sjálf er hluti af því samkomulagi sem gert var við kirkjuna og við förum eftir. Þjóðkirkjan sjálf er að búa sig afar vel undir að taka við starfsmannamálum sínum frá og með áramótum.

Hv. þingmanni er annt um kirkjuna, eins og mér. Ég myndi skrá mig í hana sjálf þótt hún væri ekki þjóðkirkja eins og hún er í dag. En kirkjan er alltaf í smíðum og þjóðkirkjan verður að finna réttan samhljóm við þjóðina. Það er undir henni komið hvort hún eigi stuðning þjóðarinnar vísan eða ekki, hvort fólk muni leita til hennar í erfiðum málum sem og á gleðistundum. Það er undir kirkjunni komið og tengist því bara ekki að neinu leyti hvernig tengslum hennar við ríkið verður háttað í framtíðinni. Það snertir aðeins það hvernig þjóðkirkjan mun (Forseti hringir.) vera í framtíðinni og hvort hún muni sjálf halda tengslum við fólkið í landinu og fólkið vilji vera hluti af henni og leita til hennar.

(Forseti (BHar): Forseti biðst afsökunar á að hafa gleymt að stilla klukkuna en í ljósi þess að fjórir hv. þingmenn veita andsvar er ræðutíminn eingöngu ein mínúta í hvert skipti. Hæstv. dómsmálaráðherra græddi á þessum mistökum forseta.)