150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:09]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður er farinn að leggja mér orð í munn og það væri gott að fá hér tvær mínútur. En fyrst ég hef þær ekki get ég bara sagt að ég er ekki að leggja til að taka ákvæðið úr stjórnarskránni. Ég ætla að biðja hv. þingmann að leggja mér ekki þau orð í munn. Þetta er ekki nýtt samkomulag. Það er útfærsla á því samkomulagi sem var gert við kirkjuna þegar ég var sjö ára gömul. Það er verið að útfæra hvernig greiðslum er háttað. Þetta frumvarp felur einungis í sér að starfsmenn kirkjunnar verði ekki starfsmenn ríkisins heldur starfsmenn þjóðkirkjunnar. Þrátt fyrir þetta samkomulag mun þjóðkirkjan áfram njóta stuðnings og verndar íslenska ríkisins á grundvelli ákvæðis stjórnarskrárinnar. Það er ekkert í þessu máli sem fjallar um það eða annað sem hv. þingmenn hafa verið að ræða hér í allan dag.

Það má ræða samkomulagið frá 1997. Það er alveg sérstök umræða sem væri hægt að taka. Þá væri hægt að ræða aukið sjálfstæði þjóðkirkjunnar með öðrum hætti. Ég mun (Forseti hringir.) þurfa að breyta þjóðkirkjulögum í takt við það samkomulag sem við höfum gert við þjóðkirkjuna og það frumvarp mun ég koma með í vor. Ég mun þurfa að fella ýmislegt úr þeim lögum, m.a. um sjóði og annað sem stendur í samkomulaginu. En það er ekki til umræðu í dag. Það væri ágætt ef hv. þingmenn myndu halda sig við umræðuefnið.

(Forseti (BHar): Forseti minnir alla hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á tímamörkin.)