150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talar í þessari ræðu, eins og hann hefur gert áður, og reynir að líta á þetta sem einhvers konar vaxtagreiðslur af láni. Ég vil bara benda hv. þingmanni á að þetta eru ekki vaxtagreiðslur. Þetta eru greiðslur vegna launa eins og kemur skýrt fram í lögum sem hér er lagt til að verði breytt. Það er enginn höfuðstóll. Hv. þingmaður hefur haft nokkur orð um að hægt sé að reikna hann út og ég heyri töluna 53 milljarða sem með hliðsjón af óendanlegri tölu er ekki há upphæð og er vel gerlegt fyrir ríkissjóð að ná að borga niður slíka upphæð á einhverjum árafjölda. Það þurfa ekkert að vera tvö, þrjú ár, það má vera lengri tíma mín vegna, en það er grundvallaratriði að það sé þá afborgun, að einhvern tímann verði fullnaðaruppgjör. Í viðbótarsamkomulaginu er þetta fyrirkomulag sem er lagt upp með kallað fullnaðaruppgjör, sem það er augljóslega ekki fyrst greiðslurnar halda áfram að eilífu. Þannig að mér finnst hv. þingmaður þurfa í fyrsta lagi að hætta að tala um þetta sem vaxtagreiðslur. (Forseti hringir.) Þetta eru ekki vaxtagreiðslur. Ef hv. þingmaður er til í að finna út einhvern höfuðstól og breyta þessu þannig að þetta séu afborganir af láni eða í það minnsta þannig að það sé til höfuðstóll, þá finnst mér að hv. þingmaður eigi að styðja þá tillögu frekar en að láta eins og þetta sé eitthvað sem það er ekki. Það er enginn höfuðstóll og þetta eru ekki vaxtagreiðslur.