150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er nú ekki betur innrættur en svo að mér finnst 7% vextir bara frekar hátt. Óháð því langar mig að bera undir hv. þingmann stefnu Pírata í trúmálum en hún er svo, með leyfi forseta:

„Stefna beri að fullum og algjörum aðskilnaði ríkis og kirkju og jafnri stöðu allra trúar- og lífsskoðunarfélaga. Um þjóðkirkjuna gildi sömu lög og reglur og um önnur trúar- og lífsskoðunarfélög.

Endurskoða beri samninga ríkisins við þjóðkirkjuna um kirkjujarðir (frá 1997) og prestsetur (frá 2006) með tilliti til:

a) Þess hvort greiðslur ríkisins séu sanngjarnar og eðlilegar miðað við þær eignir sem um ræðir.

b) Þess hvort skynsamlegra sé að greiðslur ríkisins verði skilgreindar sem afborganir heldur en sem greiðslur fyrir afnot.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála þessari stefnu eða hvort hann hafi eitthvað við hana að athuga. Ég skil ekki alveg hvernig hv. þingmaður nefnir 53 milljarða eins og þjóðkirkjan hafi samið af sér. Það er ekkert ógurlega há upphæð miðað við umfangið sem hv. þingmaður talar áfram um. Ég er því pínu ringlaður yfir því hvað það er sem hv. þingmanni finnst athugavert við að fara þessa leið, ef eitthvað.