150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur fyrir að mig og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson greinir á um ýmsa hluti og ef við horfum á stóru myndina í þessu máli held ég að við komumst ekkert áfram í samtali okkar, komumst ekki að niðurstöðu um hvert eiginlegt verðmæti yfirfærðs eignasafns þjóðkirkjunnar sé á núvirði. Ég held að það sem skipti mestu máli sé að halda því til haga að yfirfærsla eigna var gríðarleg að umfangi. Ég tel að það blasi við að ríkissjóður hafi ekki verið hlunnfarinn í upphaflega samkomulaginu. Ef þjóðkirkjan getur rekið starfsemi sína og þjónustu alla á þessum forsendum held ég að það sé til mikilla bóta. Ég bara neita að skrifa upp á það að á meðan greiðslur til þjóðkirkjunnar, (Forseti hringir.) með öllu því andlagi sem fólst í jörðunum, eru lægri en framlagið til Ríkisútvarpsins á hverju ári sé það einhver ofgnótt.