150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. dómsmálaráðherra segir að þetta snúi aðeins að þeim anga sem fjallar um starfsmennina er hæstv. dómsmálaráðherra samt sem áður að tala um viðbótarsamninginn og það sem felst í honum. Ég er hins vegar að gagnrýna það að ríkið sé yfir höfuð að greiða til kirkjunnar fyrir tæmandi auðlindir, sem eru þær jarðir sem um ræðir, og borga þetta að eilífu. Það er það sem ég er á móti. Þetta frumvarp varðar það með beinum hætti, nánar tiltekið 16. gr., sem fellir burt V. kaflann úr lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Hvað það varðar hvernig ég myndi gera þetta sjálfur er ég hlynntur því að annar samningur verði gerður við kirkjuna en hann á að fela í sér að um afborganir verði að ræða þannig að ríkið verði einn daginn skuldlaust við þjóðkirkjuna og þurfi ekki að greiða henni neitt umfram það sem það þarf að greiða öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum. Það finnst mér vera ærlegt markmið og rétt markmið. Það er ekki það sem frumvarpið gerir, það er ekki það sem 16. gr. gerir og það er það sem ég gagnrýni. Þar er tengipunkturinn við viðbótarsamninginn og kirkjujarðasamkomulagið og samband ríkis og kirkju, þetta er allt í samhengi. Umræðan er bara algerlega í samhengi við þetta frumvarp. Þótt hæstv. dómsmálaráðherra finnist þessi starfsmannaangi ekkert vera það stór hluti af pakkanum finnst mér hann vera það. Mér finnst samhengi við kirkjujarðasamkomulagið og samband ríkis og kirkju vera það. Þar er ég einfaldlega ósammála hæstv. ráðherra og það verður bara að hafa það.

Spurt er hvernig ég myndi haga þessum lögum og ég svara því á þann veg að mér finnst skrýtið að til séu lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Ekki eru til lög um stöðu, stjórn og starfshætti Ásatrúarfélagsins. Af hverju ættu að vera sérstök lög um þetta? Þetta er bara dæmi um óeðlilegt samkrull ríkisins og þessa tiltekna trúfélags. Í því felst enginn áfellisdómur um trúfélagið sjálft. Þetta er ágætistrúfélag, gerir alls konar frábæra hluti. Það er ekkert út á það að setja. Það er ekki mitt að setja út á það. En þess heldur er það skrýtið að hafa þessa tengingu milli pólitíkur og trúmála. Ef við ætlum ekki að hafa tilteknar trúarlegar skoðanir á því hvernig við rekum þetta land á auðvitað ekki að vera nein tenging þar á milli. (Forseti hringir.) Það er niðurstaðan sem ég vil sjá. Ég vil ekki bara sjá hana samkvæmt stjórnarskrá og lögum heldur líka fjárhagslega.