150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:39]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er hv. þingmaður að tala um nýtt samkomulag sem hann vill gera um þjóðkirkjuna. Það er þá umræða sem verður að taka og ætti að taka hér í þingsal. En hún snýr ekki að þessu frumvarpi og lokar ekki heldur fyrir að það samtal sé tekið við þjóðkirkjuna. En hv. þingmaður svaraði heldur ekki spurningunni um hvort hann myndi vilja stíga slíkt skref burt séð frá öðru. Ég veit alveg að vilji hv. þingmanns stendur til þess að klippa á öll tengsl, leggja niður öll lög, taka ákvæðið úr stjórnarskrá og klára þetta allt á einu bretti. Það er ekki raunhæfur möguleiki. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmanni, ef hann væri til í að setja á sig þau gleraugu hvað raunhæft sé að gera, finnist þetta ekki ágætt skref í þá átt að efla sjálfstæði kirkjunnar svo að hún líkist öðrum trúfélögum sem fara með sín mál sjálf, ákveða hvað þau þurfa marga presta, hvað þeim er borgað í laun o.s.frv. Ég held að þetta sé gott skref og ég flyt þetta frumvarp sem snýr eingöngu að starfsmannamálum. Jú, auðvitað tengist þetta útfærslunni á samkomulaginu frá 1997 en lokar alls ekki á umræðu um það hvernig við förum með þessi mál til frambúðar. Ég er alveg sammála hv. þingmanni, eins og ég hef sagt margoft, um að meiri krafa til aukins jafnræðis milli trúfélaga sé til staðar.