150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Ég hef svolítið verið að velta fyrir mér því sama og hv. þingmaður var að velta fyrir sér í ræðu sinni, af hverju þurfi að lauma svona máli í gegnum þingið á síðustu stundu þannig að það sé alveg augljóst að þingið geti ekki gefið sér mikinn tíma til að setja sig ofan í málið og kalla eftir einhverjum sérfræðiálitum eða glöggva sig betur á hvað mögulega liggi þarna að baki. Hæstv. ráðherra hefur kvartað nokkuð yfir því í umræðunum í kvöld að hér sé verið að ræða um eitthvað annað og meira en þetta frumvarp felur í sér en kjarni máls að mínu viti er að verið að breiða yfir að árið 1997 var gert samkomulag við kirkjuna þegar um eða yfir 90% þjóðarinnar voru í þjóðkirkjunni. Það samkomulag hefur verið verðbætt á grundvelli verðlags og launa allar götur síðan og bar í sér endurskoðunarákvæði að 15 árum liðnum. Það endurskoðunarákvæði hefur nú verið nýtt og aftur skal beðið í 15 ár til viðbótar til að mega endurskoða þetta ákvæði að nýju. Guð veit hversu margir verða í þjóðkirkjunni þá en áfram erum við samt sem áður að greiða þjóðkirkjunni verðbætt á grundvelli verðlags og launa það sama og áður þrátt fyrir að svo mjög hafi fækkað í þjóðkirkjunni. Þegar öllu er á botninn hvolft vilja stjórnvöld kannski ekki að þingið fái að ræða til hlítar þessa einföldu staðreynd, hvað þá þá einföldu staðreynd sem snýr að spurningum mínum til hv. þingmanns: Er eðlilegt að framkvæmdarvaldið bindi hendur þingsins til næstu 15 ára án þess að þingið fái minnsta tækifæri til að ræða forsendur þess samkomulags sem verið er að binda hendur þingsins með?