150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Fyrir marga hluta sakir hefur þetta verið forvitnileg umræða að fylgjast með um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Ég viðurkenni að vegna anna við aðra hluti í þinghúsinu hef ég ekki getað fylgst með allri umræðunni og hef þar af leiðandi ekki getað sett mig mjög djúpt inn í þá samninga sem hér hefur verið rætt töluvert mikið um. Ég reyndi það þó aðeins áðan. Hún er mjög áhugaverð, þessi heimspekilega umræða sem ég hef náð að hlusta aðeins á.

Frumvarpið sjálft sem er til umræðu hér er hvorki stórt né flókið í sniðum og fór ráðherra ágætlega yfir innihald þess. Það er lagt fram til þess að uppfylla ákveðinn samning eða fylgja eftir ákveðnu samkomulagi og yfirlýsingu sem var gerð í haust, ef ég skil þetta rétt, og vísað í þá samninga sem hér hafa verið mikið til umræðu. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér þennan samning frá 1997. Eflaust er hægt að hafa alls konar skoðanir á því hvernig það samkomulag á að líta út og allt það. Það er verið að auka sjálfstæði kirkjunnar og færa til hennar kannski meiri ábyrgð en verið hefur en um leið að stíga skref, sem mér heyrast sumir hafa komið hér inn á, að þeim aðskilnaði sem margir hverjir vilja sjá verða milli ríkis og kirkju. Um það geta menn deilt mjög lengi hvort hér eigi að vera þjóðkirkja, ríkiskirkja eða hvað við köllum þetta eða hvort svo eigi ekki að vera. Kannski er afstaða mín eitthvert uppeldislegt atriði, ég veit það ekki, ég er alinn upp við þjóðkirkjuna, en finnst mér hún hafa virkað vel og hafa gert gott. Ég þekki mörg dæmi um það hvernig starfsfólk hennar hefur hresst andann hjá mörgum þegar þeir hafa þurft á því að halda og aðrir hafa ekki verið til staðar. Ég er ekki að segja um leið að enginn annar geti gert það. Þetta er hins vegar hlutverk sem hefur að sumu leyti verið einstakt hjá þjónum kirkjunnar. Það kann að vera öðruvísi í hinu stóra þéttbýli en úti á landi. Nálægðin er oft og tíðum meiri úti á landi og menn finna meira fyrir mikilvægi þess að geta leitað á ákveðinn stað. Menn geta svo velt því fyrir sér hvað slíkt má kosta. Mér hefur heyrst það líka vera hér í umræðunni. Ég held að það sé erfitt að setja puttann á hvað slíkt má kosta vegna þess að fyrir utan þetta starf sem ég er að tala um, þá huggun eða það hlutverk sem kirkjan hefur víða, eru vitanlega margs konar önnur verkefni eins og hjálparstarf, að hjálpa þurfandi á Íslandi og erlendis. Ég er skírður en það á ekki við um öll mín börn, þau eru ekkert verri börn fyrir það en kusu að gera það ekki. Það er allt í góðu með það, þau ákváðu sum að láta ekki ferma sig og þetta er nokkuð sem við virðum. Ekki datt mér í hug að neyða viðkomandi son minn til að taka einhverja aðra ákvörðun en hann vildi. Ég veit hins vegar að hann ber fulla virðingu fyrir því sem ég held að kirkjan standi fyrir og að hún sé mikilvæg í samfélagi okkar. Ég er hlynntur trúarbrögðum almennt. Ef fólk vill leita huggunar í öðrum trúarbrögðum er það í góðu lagi mín vegna. Ég lít á kirkjuna sem stóran hluta af sögu okkar og menningu. Menn geta alveg gagnrýnt að það séu veik rök en fyrir mér skiptir það máli.

Núna er ég kominn aðeins út fyrir frumvarpið, sem ég ætlaði ekki að gera, en því fylgir greinilega umræða um þessi mál að maður fer aðeins á flug. Það sem ég hef heyrt út undan mér hefur verið mjög fróðlegt og ég er bara mjög glaður með að ekki séu allir á einni skoðun með þetta vegna þess að það væri ekkert hollt ef við værum öll eins þegar kemur að svo stóru máli sem við erum að ræða hér, að vera með einhvers konar stofnun sem þjóðkirkjan er og að allir ættu að vera þar og ekki mætti gagnrýna það. Þá værum við á hættulegum stað. Kirkjuna má að sjálfsögðu gagnrýna og á að gagnrýna eins og allt annað. Svo ég haldi áfram að vera fyrir utan frumvarpið, reyni samt að koma mér þangað eftir smástund, vil ég áfram sjá þjóðkirkjuna. Árið 2012 sagði þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu að hún vildi áfram hafa ákvæði um þjóðkirkju. Á að spyrja að því reglulega? Það getur vel verið að það eigi að gera það. Ég ætla ekki segja að ég sé á móti því hér. Það er alveg sjálfsagt að mæla ánægjuna eða kanna hana með bindandi hætti.

Ég held hins vegar að þjóðkirkjan hafi að sumu leyti, svo ég gagnrýni aðeins, ekki fylgt tímanum, ekki staðið sig í stykkinu og þróast með samfélaginu. Hún á að þróast í ákveðnum hlutum, á að geta nýtt sér tækni og höfðað þannig til nútímans, hún á líka að standa fyrir ákveðin gildi að mínu viti sem eru góð. Það er hins vegar okkar í hinum veraldlega heimi að reyna að lifa eftir þeim. Það gengur misjafnlega, við gerum mistök og það allt og það gera líka þjónar kirkjunnar, við skulum ekki draga neina fjöður yfir það, en heilt yfir held ég að þessi sambúð hafi verið okkur til heilla. Ég er ekki hlynntur því að hún sé brotin upp. Ísland er vitanlega ekki eina ríkið þar sem þetta fyrirkomulag er til staðar. Ef ég veit rétt hefur verið látið á það reyna hvort þetta fyrirkomulag samræmist ákvæði um trúfrelsi í stjórnarskrá og ég held að staðfest hafi verið að svo sé. Það er hins vegar sjálfsagt að hafa aðra skoðun á því og mér finnst það bara allt í lagi. Vitanlega er það ákveðin afstaða að hafa enga trú, að standa fyrir utan alla þessa flóru sem við höfum og ber okkur að virða það líka. Að sjálfsögðu geri ég það.

Ég ætla ekki að hætta mér út í þessa samningaumræðu mikið og helst ekki neitt en málið byggir á þeim samningum sem menn hafa komið inn á og því samkomulagi sem var gert nýlega, það er verið að fylgja því eftir. Ég hugsa að það sé í sjálfu sér til bóta fyrir bæði ríkisvaldið og kirkjuna að þessi aðskilnaður sé með þessum hætti. Hversu langt við eigum að ganga er hins vegar önnur spurning. Málið er í sjálfu sér í eðlilegu framhaldi af því sem áður er búið að gera. Svo er allt í lagi að velta því upp hvort rétt sé að þessu staðið. Ég hefði viljað sjá þetta mál koma miklu fyrr inn í þingið eins og margir hér hafa gagnrýnt. Það er bara eðlilegt. Margir hafa skoðanir á þessu máli og eiga að hafa skoðanir á því. Þar af leiðandi tek ég undir með þeim sem hafa sagt að það sé hallærislegt eða undarlegt að ætlast til þess að málið sé afgreitt hér með hraði þegar bæði rök og tilfinningar eru ríkar í málinu. Það hefði verið betra að hafa meiri tíma til þess en ég tel hins vegar ekki ástæðu í sjálfu sér fyrir því að það nái ekki fram að ganga. Menn hafa rætt hér um að fresta því og taka það fyrir á miðju ári, eitthvað slíkt. Það getur vel verið að það sé hægt. Það er líka hægt að gera það um næstu áramót, fresta um ár ef menn vilja ræða málið frekar. Ég geri ekki stóran mun á því en það er nokkuð sem menn þurfa þá að greiða úr kjósi þeir að fara þá leið.

Ég held að það sé mikilvægt að þegar þessi skipting verður verði hugað vel að vistaskiptum, eða hvað á að kalla þetta, hjá þeim starfsmönnum sem þarna um ræðir, að vel sé frá því öllu saman gengið. Mér heyrist að það sé raunin hér og fannst ráðherra fara ágætlega yfir það. Það er ástæðulaust að fara að búa til einhver óþarfavandkvæði hjá fólki.

Eins og kemur fram í greinargerð er verið að reyna að ná markmiðum þess viðbótarsamnings sem fylgdi gögnunum og hefur verið svolítið til umræðu. Átti þessi samningur að koma til þingsins til staðfestingar? Ég veit það ekki. Það má segja að það væri góður bragur á því að allir svona samningar kæmu til þingsins. Ég er ekkert endilega samþykkur því. Ég held að framkvæmdarvaldið verði að hafa eitthvert svigrúm til að gera samninga. Ég treysti mér ekki til að segja hvort það eigi að draga það við þessa samninga eða þær upphæðir sem þarna eru. Það er eflaust hægt að færa fyrir því rök að upphæðirnar séu slíkar að samningurinn hefði átt að koma fyrir þingið.

Það hefði verið betra að gefa meiri tíma til að ræða þetta mál en það er ekki í boði. Ég tek hins vegar undir með þeim sem gagnrýna þá málsmeðferð.

Hvað leiðir af þessu frumvarpi í framhaldinu? Verður frekari vinna? Mér heyrðist á hæstv. ráðherra að þetta væri upphafið á ákveðnu ferli til að skýra þennan aðskilnað, gera hann augljósari og hreinni. Ég legg áherslu á að það sé gert í eins mikilli sátt milli þessara aðila og hægt er. Ég veit minnst um þá sjóði í frumvarpinu sem heyra undir kirkjuna, ég viðurkenni það algjörlega. Ég kann ekki nákvæmlega hvernig það skiptist allt saman, en held að það sé mikilvægt að gætt sé að því, meðan ekki eru teknar ákvarðanir um að þau verkefni sem þjóðkirkjan hefur sinnt séu færð annað með einhverjum hætti, að hún fái tækifæri til að sinna þeim áfram. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði í upphafi, og ætlaði vitanlega ekki að gera, að fara út fyrir frumvarpið, að reynsla mín sé sú að sá hluti af okkar samfélagi sem þjóðkirkjan hefur verið hafi unnið gott starf.

Mér er málið nokkuð skylt eftir að hafa sjálfur verið í ungliðastarfi í kirkjunni í gamla daga og er eins og ég sagði áðan skírður og hef skírt sum börnin mín, ekki öll, fermt sum, ekki öll. Þetta er stofnun sem ég vil klárlega sjá áfram. Á laugardaginn ætla nokkrir synir mínir ásamt fleirum að halda tónleika í kirkjunni á Sauðárkróki og safna fjármunum fyrir fjölskylduhjálp kirkjunnar. Það er dæmi um það þegar kirkjan og einstaklingar taka sig saman og láta gott af sér leiða. Þetta er sjálfboðavinna þar. Margir njóta góðs af, vonandi bæði áheyrendur og þeir sem munu fá stuðning sem kirkjan mun úthluta. Auðvitað geta menn sagt: Þetta getur einhver annar gert líka. Eflaust er það rétt, en þarna er þetta skemmtilegt samstarf og rammar svolítið inn að víða skiptir kirkjan gríðarlega miklu máli, kannski sérstaklega í minni samfélögum.