150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég virði algjörlega þá skoðun hv. þingmanns að finnast þetta ósanngjarnt. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, mér finnst að þeir sem aðhyllast enga trú eigi nákvæmlega sama rétt á því og aðrir sem aðhyllast einhverja trú. Ég er sammála hv. þingmanni, mér finnst trúfrelsi sjálfsagt. Við vitum að það er ekki alls staðar þannig þó að það sé á Íslandi og okkur finnist kannski það eiga að vera sjálfsagt alls staðar að fólk geti trúað á það sem það kýs. Við megum þess vegna alveg fagna því að það sé trúfrelsi á Íslandi. Ég ætla ekki að segja að við séum fremst í flokki þegar að því kemur en hér er þó trúfrelsi.

Forréttindi? Það má kannski kalla þetta forréttindi. Í mínum huga eru þessi forréttindi, ef má kalla þau það, byggð á langri sögu og mikilli tengingu við land og þjóð. Meiri hluti landsmanna er í þessum söfnuði, í þessari stofnun o.s.frv. Það kann vel að vera að það sé líka rétt hjá hv. þingmanni að einhverjir geti ekki hugsað sér að leita til þjóðkirkjunnar eða einhvers annars safnaðar af því að þeir máta sig ekki þar inn í. Þegar einhver þarf huggun eða slíkt, þegar eitthvað bjátar á, er það ekki kirkjan sem spyr: Hverrar trúar ert þú eða hvaðan kemur þú? (Gripið fram í: Ekki … heldur.) Það er ekki spurt — eflaust ekki, en ég veit að í kirkjunni er ekki spurt sem er gríðarlega mikilvægt. Það væri hins vegar verulega mikið að ef stofnun sem þessi myndi loka dyrum sínum fyrir einhverjum sem á þyrfti að halda.

Nú held ég að við getum mögulega nálgast hvor annan.